146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

brottnám líffæra.

112. mál
[19:29]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þetta eru vissulega góð rök fyrir því að halda þessu inni og klárlega siðferðileg sjónarmið sem takast hér á um það hvernig best sé að haga því og haga viðkvæmu málum. Það er hughreystandi að heyra að oftast nær fylgi ættingjar sannfæringu hins látna ættingja.

Þá langar mig að spyrja: Kæmi ekki til greina í meðförum málsins að afmarka einhvers konar tilvik, til að mynda ef við sjáum fyrir okkur einstakling sem þykist vita að ættingjar muni ganga gegn vilja hans? Gæti hann með einhverjum hætti tryggt að það gerðist ekki þannig að einu gilti hvað syrgjandi vandamenn hans vildu? Þessi einstaklingur gæti mögulega vitað fyrir fram að ættingjar væru á öndverðum meiði t.d. vegna trúarskoðana viðkomandi ættingja, eins og hv. þingmaður nefndi áðan, þar sem einstaklingurinn sem um ræðir deilir þeim ekki með fjölskyldu sinni. Kæmi til greina að skoða eitthvað slíkt, að búa þannig um að einstaklingurinn sem um ræðir geti búið til einhvers konar yfirlýsingu þess efnis að nánasti fjölskyldumeðlimur hans eða ættingjar fái ekki að taka ákvörðun um þetta?