146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland.

114. mál
[19:34]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því mjög að fá tækifæri hér til þess að mæla fyrir þessari tillögu sem nú er flutt í annað sinn. Hún snýst um það að Alþingi að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að láta vinna stefnumörkun um aðgerðir sem miði að því að Ísland verði kolefnishlutlaust í síðasta lagi árið 2040.

Í stefnumörkuninni um kolefnishlutlaust Ísland verði verkefnið afmarkað og helstu þáttum þess og verkefnasviðum lýst, svo sem samgöngum, orkubúskap, framleiðslustarfsemi, skipulagsmálum o.fl. Einnig verði gerð drög að aðgerðaáætlunum með áfangaskiptingu, endurskoðunar- og endurmatsákvæðum, skilgreiningum á ábyrgð á framkvæmd og ákvæðum um eftirfylgni.

Þessi stefnumörkun verði kynnt umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í síðasta lagi 1. maí 2017.

Fullmótuð aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland verði borin undir Alþingi í formi þingsályktunartillögu eigi síðar en 1. október 2017.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mjög ítarlega yfir þá greinargerð sem fylgir þessu máli. Hún hefur áður verið flutt á þingi, en greinargerðin hefur þó verið endurskoðuð allnokkuð. Á grundvelli stefnumörkunar um kolefnishlutlaust Ísland myndum við vilja sjá fullbúna aðgerðaáætlun með þeirri afmörkun sem hér hefur verið lýst og er ekki vanþörf á í ljósi þess að frá því að þessi þingsályktunartillaga kom síðast fram hefur Ísland gerst aðili að Parísarsáttmálanum og tekist þar á hendur metnaðarfyllri markmið en við höfum áður séð í loftslagsmálum. Það skiptir máli að allar stofnanir samfélagsins vinni saman til að ná þeim markmiðum.

Hvað eigum við við með kolefnishlutleysi? Það er skilgreint hér í greinargerð, en kolefnishlutleysi felur það í sér að jafn mikið magn koltvísýrings sé bundið með mótvægisaðgerðum og berst út í andrúmsloftið frá tilteknum athöfnum sem verður til þess að koltvísýringur myndast. Kolefnishlutleysi íslensks samfélags myndi fela það í sér að jafn mikið magn CO2 yrði bundið og losnar út frá þeirri starfsemi sem hér er og þeim athöfnum sem við tökumst á hendur í daglegu lífi. Það þýðir að við þurfum að auka verulega bindingu koltvísýrings, en líka að draga verulega úr losun.

Í fyrri hluta greinargerðar er hlaupið yfir þær aðgerðir sem þarf að ráðast í. Við leggjum mikla áherslu á að horfa á öll svið samfélagsins. Ég nefndi hér allar stofnanir ríkisins sem þurfa að flétta markmið um hlutleysi inn í áætlanir sínar og ákvarðanatöku. Samtök ólíkra atvinnugreina og verkalýðshreyfingin þurfa að taka þátt í aðgerðaáætluninni þannig að fyrirtæki á markaði geri sambærilegar áætlanir. Við þurfum að horfa á slíkar áætlanir fyrir allar atvinnugreinar, landbúnaðinn, sjávarútveg, ferðaþjónustuna og hvers kyns iðnað. Við þurfum að byggja upp innviði fyrir nýjar samgöngur og standa fyrir vitundarvakningu hjá almenningi um hvernig megi draga úr losun í hinu daglega lífi með minni neyslu og breyttum lífsstíl.

Það skiptir máli að menntakerfið taki þátt í þessu verkefni með því að efla sjálfbærnimenntun á öllum skólastigum í takt við nýja aðalnámskrá. Það þarf að tryggja fjármagn til þróunarstarfs, menntun á sviði umhverfis- og loftslagsmála.

Það þarf að endurskoða fyrirkomulag grænna skatta, hækka kolefnisgjald, afnema undanþágur þannig að allt fyrirkomulag ríkisfjármála styðji við markmið um kolefnishlutleysi. Það þarf að taka upp grænt bókhald og tryggja að allar nýfjárfestingar styðji við loftslagsmarkmiðin. Skipa þarf loftslagsráð samkvæmt nýrri þingsályktun til að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í loftslagsmálum. Styrkja þarf loftslagsmál og stefnumótun innan Stjórnarráðsins til að tryggja samhæfingu ráðuneyta og stofnana.

Þetta er gríðarlega viðamikið verkefni. Eitt sem ég get nefnt til viðbótar sem ekki er talið upp í greinargerð eru auðvitað sveitarfélögin sem bæði reka sínar stofnanir og eru gríðarlegir áhrifavaldar um daglegt líf fólks og nærumhverfi okkar.

Ég þarf ekki að rekja þróun loftslagsmála eða heimshlýnun. Við vitum öll í þessum sal hvernig sú staða er. Við vitum að málið er brýnt og aðkallandi og við vitum að Ísland þarf að gera miklu betur ef við ætlum að ná markmiðum um kolefnishlutleysi. Þar gildir, eins og ég sagði í upphafi míns máls, að draga úr losun og að binda kolefni.

Ég get því miður, herra forseti, tíma míns vegna ekki haft þessa ræðu mikið lengri. En í greinargerðinni ættu flestöll sjónarmið að vera talin upp.

Ég vona svo sannarlega að hv. samgöngunefnd, sem þessi tillaga gengur til að lokinni fyrri umr., taki málið til efnislegrar meðferðar. Ég vil nota tækifærið í lokin, herra forseti, til að fagna því hvað mér finnst áhugi meðal almennra hv. þingmann á loftslagsmálum vera að vaxa. Þetta er brýnasta verkefnið sem við sem löggjafarvald stöndum frammi fyrir. Þetta er brýnasta verkefni stjórnvalda, því að ef ekki tekst að sporna gegn loftslagsbreytingum verða öll önnur verkefni hjóm eitt.

Ég legg til að þessi tillaga fari til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að lokinni þessari umræðu.