146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

117. mál
[19:39]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum, fánatími.

Auk mín eru flutningsmenn frumvarpsins hv. þingmenn Elsa Lára Arnardóttir, Þórunn Egilsdóttir og Eygló Harðardóttir.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 7. gr. laganna til að rýmka þann tíma sem fáninn má vera við hún og auka þannig almenna notkun hans. Lagt er til að efnisákvæði um fánatíma færist í lög og reglugerð ráðherra lúti því einungis að fánadögum.

Meginefni frumvarpsins er í 3. efnismgr. 1. gr. þar sem lagt er til að heimilt verði að hafa fánann við hún að nóttu til yfir bjartasta tímann hér á landi, 15. maí til 15. ágúst ár hvert. Þannig þyrfti ekki yfir sumarið að hafa áhyggjur af því að brjóta lögin heldur gæti fáninn verið við hún allan sólarhringinn.

Einnig er lagt til að heimilt verði að hafa fánann við hún að nóttu til á öðrum tímum árs ef hann er flóðlýstur. Hafa ber í huga að umrædd lýsing raski ekki um of nánasta umhverfi, samanber ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, um ljósmengun, einkum 1. mgr. í grein 10.4.2.

Svo virðist sem íslenskar reglur um notkun fánans séu rýmri en annars staðar á Norðurlöndunum. Í Noregi má draga fánann að húni frá kl. 8 frá mars til október en kl. 9 frá nóvember til febrúar. Þá skal taka fánann niður við sólsetur en ekki seinna en kl. 21 ef sólin sest síðar en þá. Í Danmörku skal ekki draga fánann að húni fyrir kl. 8 og hann skal taka niður við sólsetur. Þá má hafa fánann dreginn að húni eftir sólsetur ef hann er upplýstur en tekið er fram í handbók um danska fánann að venjuleg götulýsing nægi t.d. ekki. Í Svíþjóð gildir svipaðar reglur og í Noregi, þ.e. að frá mars til október má flagga frá kl. 8 og frá nóvember til febrúar frá kl. 9 og skal taka fánann niður í síðasta lagi kl. 21 en hann má vera lengur við hún ef hann er upplýstur.