146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

117. mál
[19:45]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur gott svar við andsvari mínu. Ég hefði kannski átt að taka það fram í upphafi máls míns áðan að ég styð alla rýmkun á þessum reglum, þannig að ég er sammála hv. þingmanni um að það sé allt til bóta. Persónulega finnst mér ýmislegt í reglunum um fánann orka hjákátlega, get ég eiginlegt leyft mér að segja hér, alls kyns reglur um hvernig eigi að fara með hann. Eftirlit með því að reglunum sé fylgt er náttúrlega ekki neitt, þannig að maður veltir því fyrir sér til hvers við erum þær.

Hvað varðar þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslands og ríkisskjaldarmerkið velti ég fyrir mér því sem hv. þingmaður kom inn á varðandi flóðlýsingu. Hér segir að fáninn megi vera uppi á öðrum tímum ef hann er flóðlýstur. Ég ætla að taka fram að mér finnst þetta ekki vera það stórt mál að ég ætli að gera mikinn ágreining úr því, svo að það sé sagt, en velti því fyrir mér á léttum nótum, en þó kannski með alvarlegum undirtóni, hvort þetta gæti ekki einfaldlega skapað mismunun vegna aðstæðna fólks. Sé einhver það vel búinn að hann geti flóðlýst fánann í garði sínum getur hann flaggað honum allan sólarhringinn og hyllt Íslendingseðli sitt, en sá eða sú sem ekki hefur ráð á flóðlýsingu verður að láta sér nægja sólarljósið.