146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

kostnaður við breytingu á Stjórnarráðinu.

[10:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég átti orðastað við hæstv. ráðherra þegar hann mælti fyrir stjórnartillögu um breytta skipan ráðuneytis Stjórnarráðs Íslands eða stofnun nýs dómsmálaráðuneytis. Við ræddum í þeirri umræðu um kostnað við þær breytingar. Það olli okkur mörgum hverjum áhyggjum að við þær umræður kom í ljós að ekkert kostnaðarmat hafði farið fram. Hæstv. ráðherra svaraði raunar svo að það væri alveg ljóst að það myndi hafa einhvern viðbótarkostnað í för með sér að taka eitt ráðuneyti og breyta því í tvö, eins og hann orðaði það í umræðum. Hann nefndi ákveðna grunnþjónustu, sérstakan ráðuneytisstjóra o.s.frv. Ég bað hæstv. ráðherra að skerpa á þessu svari, á hvaða skala þær tölur væru sem þarna væru á ferðinni, hvaða tölur á ársgrundvelli væru þar undir, 10 milljónir, 50 eða 100. Nú hefur komið í ljós í meðförum nefndarinnar á málinu að eftir nokkurn tíma hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tekist að ná út tölunni 120 milljónir á ársgrundvelli, sem þessi breyting mun kosta. Þetta hugarfóstur nýrrar ríkisstjórnar, þ.e. að smíða sérstakt ráðuneyti undir núverandi dómsmálaráðherra, kostar nánast hálfan milljarð á kjörtímabilinu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að hann talaði um að hann sæi leiðir til að hagræða fyrir þessu annars staðar í Stjórnarráðinu, hvar standi til að gera það og hvort þessi tala sé í samræmi við það sem hann hélt, og af hverju hann gerði þinginu ekki grein fyrir því á sínum tíma eða hvort þessi tala komi honum óþægilega á óvart eins og þeirri sem hér stendur.