146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

samstarf við breytingar á lífeyrissjóðakerfinu.

[10:41]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem skiptir máli er að það sé samtal, að menn geti átt samskipti og rætt um áherslumál sín. Það sem við höfum gert nýlega er að við sátum hálfan dag með forystu þessara heildarsamtaka og öðrum til þess að hlusta eftir þeirra helstu áherslumálum. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta er eitt af þeim málum sem ber á góma þegar maður ræðir við heildarsamtökin á vinnumarkaði, sérstaklega launþegamegin.

Ég hef áður tjáð mig í nokkuð löngu máli um stöðuna varðandi jöfnun lífeyrisréttinda. Það lá alltaf fyrir að það væru hópar sem vildu ekki undir neinum kringumstæðum gefa eftir ríkisábyrgð á iðgjaldinu og kærðu sig ekkert um þessa breytingu. Síðan voru aðrir sem leiddu samtalið við stjórnvöld sem vildu geta gert það undir ákveðnum forsendum. Það sem ég tel geta skipt mjög miklu varðandi framhald þessara mála er að menn setjist yfir þá heildarhagsmuni sem eru undir.

Því miður, eins og ég hef verið að tjá mig um tiltölulega nýlega, finnst mér vinnumarkaðsmódelið sem við erum með í höndunum vera mölbrotið. Það er afskaplega erfitt að fá menn inn á sama vagninn. Það er eiginlega sama hvar drepið er niður fæti. Það eru ekki allir aðilar að rammasamkomulaginu. Það voru ekki allir aðilar að SALEK-samkomulaginu. Þar hafa menn sett mál í frost í bili. Menn fara fram hver með sínar kröfur, horfa á málið frá hagsmunum félagsmanna sinna. Það er mjög erfitt að efna til samtals þar sem er verið að líta vítt yfir sviðið og spyrja: Hvað gagnast heildinni best þegar fram í sækir?

Það er í rauninni það sem mig langar til að sjá gerast, að freista þess að ná samtalinu (Forseti hringir.) aftur inn á þá braut að við séum að horfa á hagsmuni heildarinnar en ekki út frá (Forseti hringir.) sérhagsmunum hvers hóps hverju sinni.