146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

greiðsluþátttaka einstaklinga í heilbrigðiskerfinu.

[10:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Eins og ég náði ekki að koma að í fyrra svari mínu þá er nýtt kostnaðarþátttökukerfi í lyfjum. Við höfum orðið smá reynslu af því. Þar er þumalputtaþakið einhvers staðar um 70.000 á ári ef ég man rétt. Í greiðsluþátttökukerfi fyrir læknisþjónustu sem við erum að taka í gagnið núna 1. maí verður þakið sett í reglugerð. Það er alla vega ljóst að annars vegar erum við að miða við þak sem verður einhvers staðar á þessu bili, 50.000–70.000, fyrir almenna einstaklinga, en síðan miklu lægra þak fyrir börn, aldraða og öryrkja. Mér finnst það alla vega mikilvægt fyrsta skref. Þar erum við í það minnsta að meðaltali að lækka kostnaðarþátttökuna frá því sem var.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að stefna neðar. Síðustu tölur sem ég hef séð eru að við höfum náð kostnaðarþátttökunni niður í 17%. Annars staðar á Norðurlöndunum (Forseti hringir.) er hún almennt á bilinu 14,8–17%. Mér finnst að við eigum alla vega ekki að gera verr en þær þjóðir gera best.