146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

ívilnandi samningar vegna mengandi stóriðju.

[10:51]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. iðnaðarráðherra út í yfirlýsingar umhverfisráðherra þess efnis að hér verði ekki efnt til nýrra ívilnandi fjárfestingarsamninga vegna mengandi stóriðju. Hún hefur sagt að þeim kafla í Íslandssögunni sé lokið. Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hefur áður spurt hæstv. umhverfisráðherra um þessi mál á þingi. Þær umræður urðu ekki til þess að skýra stefnu ríkisstjórnarinnar um viðkvæmt samspil umhverfismála og atvinnuuppbyggingar.

Ívilnanir til nýfjárfestingar eru veittar samkvæmt rammalöggjöf um ívilnanir frá 2015. Þar eru upptalin ýmis skilyrði sem verkefnið þarf að uppfylla til að geta notið ívilnana. Þar er hvergi minnst á að mengandi stóriðja geti ekki notið stuðnings. Fyrirtæki og einstaklingar hljóta að vera jöfn gagnvart lögunum.

Ég spyr því iðnaðarráðherra hvernig ná eigi markmiðum um engar ívilnanir fyrir mengandi stóriðju, hvort til standi að breyta rammalöggjöf um ívilnanir og hvað mengandi stóriðja sé að mati hæstv. ráðherra.

Nær hugtakið mengandi stóriðja yfir verkefni sem falla undir viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir sem Ísland er aðili að? Slík verkefni geta farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum og fengið framkvæmda- og starfsleyfi á grundvelli íslenskra laga. Má þá skilja yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar svo að hér megi setja af stað ný verkefni sem gætu kallast mengandi stóriðja, en bara ef þau fá ekki fjárfestingarsamning með ívilnunum?