146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

málefni Seðlabankans og losun hafta.

[11:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra virðist hafa efasemdir um vefritið Kjarnann sem heimild, allt í lagi með það, en ég var bara að vísa til svars hans sjálfs til þess vefmiðils. Mér finnst að svar hæstv. ráðherra bæti nú ekki miklu við það. Þannig að látum það liggja á milli hluta hvort Seðlabankinn sé öruggari í forsætisráðuneytinu en í fjármálaráðuneytinu. Hugsanlega hefur það eitthvað með það að gera hver er fjármálaráðherra núna.

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra svaraði í engu spurningu minni um afstöðu til þess með hvaða hætti eigi að halda áfram áætlun og mikilvægt er að hafa það í huga. Það er til staðar áætlun um losun hafta. Hæstv. ráðherra rakti eingöngu í hverju sú áætlun hefði falist. Við þekkjum það væntanlega öll hér hvernig þeirri áætlun var stillt upp. Það sem ég er að spyrja hæstv. ráðherra um: Ætlar hann að hverfa frá þeirri áætlun, sem mér sýnist vera stefnan? Það hefur alla vega komi fram í fjölmiðlum að hv. embættismenn forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans hafa fundað með fulltrúum þessara vogunarsjóða til að ræða það hvort eigi að hleypa þeim út (Forseti hringir.) fyrr, ólíkt því sem boðað var þegar útboðið fór fram.