146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

staða og stefna í loftslagsmálum.

205. mál
[11:04]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Forseti. Háttvirtir þingmenn. Skýrslan sem hér um ræðir á Alþingi er lögð fram að frumkvæði mínu í því skyni að taka saman nýjustu og bestu upplýsingar um stöðuna í loftslagsmálum og að skapa umræðu um næstu skref í þeim efnum. Ég tel að nú sé góður tími til að taka umræðu um loftslagsmál á Alþingi þar sem þau eru ofarlega á dagskrá nýrrar ríkisstjórnar og við höfum einnig fengið nýja greiningu í hendur frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Greining Hagfræðistofnunar á stöðunni er í senn viðvörun en líka hvatning. Spá um losun sýnir mikla aukningu á komandi árum og að við munum að óbreyttu ekki standa við markmið innan Kyoto-bókunarinnar árið 2020 og Parísarsamningsins árið 2030. Hins vegar segir hún líka að við Íslendingar eigum fjölmörg tækifæri til að draga úr losun og auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti. Margar aðgerðir eru tiltölulega ódýrar og sumar geta jafnvel skilað fjárhagslegum hagnaði, óháð ávinningnum fyrir loftslagið og umhverfið.

Í skýrslunni er fjallað nokkuð ítarlega um skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Ísland hefur, eins og flest ríki heims, tilkynnt markmið undir merkjum Parísarsamningsins en tekur líka inn evrópskar reglur á grunni EES-samningsins. Ábyrgð á losun er ólík eftir því hvort um er að ræða t.d. millilandaflug, stóriðju eða bifreiðar. Losun frá landi er utan skuldbindinga, en ávinningur af aðgerðum eins og skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis getur talist til tekna á móti losun í öðrum geirum. Hér er ekki tími til að reifa þetta regluverk, en nauðsynlegt er að þeir sem koma mest að verkefnum í loftslagsmálum þekki það í stórum dráttum.

Í grunninn er þetta verkefni einfalt. Það snýst um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að upptöku kolefnis úr andrúmslofti. Við eigum að leitast við að standa við skuldbindingar okkar eftir þeim reglum sem gilda, en við eigum líka að stuðla að árangri hvar sem við getum, óháð því hvar loftslagsávinningurinn er færður til bókar.

Hvar eiga þá áherslur okkar að vera? Nokkrar þær helstu eru taldar upp í skýrslunni. Orkuskipti í samgöngum eru verkefni sem blasir við. Hagfræðistofnun telur slíkt beinlínis gott fyrir budduna, jafnt sem loftslagið. Í viðbót fáum við aukið orkuöryggi og minni heilsuspillandi mengun. Hið sama má segja um mörg önnur verkefni í loftslagsmálum, þau skila öðrum ávinningi sem taka þarf með í reikninginn. Ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra hefur lagt fyrir tillögu til þingsályktunar sem ég vænti að verði grunnur að öflugu starfi í þeim málum.

Orkuskipti eru einnig möguleg í sjávarútvegi. Þar hefur dregið úr losun og væri ánægjulegt að geta hraðað enn þeirri ánægjulegu þróun. Í landbúnaði eru einnig tækifæri og mér finnst rétt að spyrja hvort stuðningur ríkisins geti að einhverju leyti verið nýttur til loftslagsvænna verkefna.

Í landnotkun liggja stór tækifæri. Skógrækt og landgræðsla nema kolefni úr andrúmsloftinu. Þar er rétt að bæta í. Endurheimt votlendis getur dregið úr losun frá framræstum mýrum. Það er einboðið að efla starf þar en ljóst er að jafnframt þarf að efla vísindalegt mat á árangri þar. Ísland hefur verið í framvarðarsveit ríkja sem vilja taka aðgerðir varðandi landnotkun inn sem viðurkenndar aðgerðir í loftslagsmálum en þar hefur stundum verið á brattann að sækja. Fyrir liggur að innri reglur Evrópusambandsins setja þak á hversu mikið er hægt að telja fram af aðgerðum í landnotkun á móti annarri losun. Það á samt ekki að draga úr stuðningi okkar við landbótaaðgerðir sem gagnast loftslaginu beint og skila að auki fjölþættum vistfræðilegum og samfélagslegum ávinningi.

Stóriðja er stærsta uppspretta losunar hér á landi og þar sem aukningin er mest. Stóriðjan er þátttakandi í samevrópsku viðskiptakerfi þar sem ábyrgðin er í raun sett á herðar fyrirtækja en ekki beint á herðar stjórnvalda. Stóriðjufyrirtæki hér hafa mörg staðið sig vel og losa mjög lítið á framleiðslueiningu. Engu að síður hljóta stjórnvöld að taka stóriðju með í heildarmyndina. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að ekki verði gerðir fleiri ívilnandi samningar við mengandi stóriðju. Þar hefur verið gengið fram af nokkru kappi á liðnum árum sem breytist nú. Ég tel rétt að horfa t.d. til orkuskipta varðandi nýtingu á okkar endurnýjanlegu orku á næstunni.

Ég gæti nefnt fleiri svið en læt staðar numið hér. Við þurfum þó að skilja að það er engin ein töfralausn, ekkert eitt verkefni sem getur leyst allt. Við þurfum að sækja fram alls staðar þar sem við sjáum fram á árangur og forgangsraða aðgerðum sem eru hagkvæmastar og skila fjölbreyttum ávinningi.

Það er ljóst að þessar aðgerðir munu ekki ganga fram sjálfkrafa. Stjórnvöld þurfa að ýta á að þær verði að veruleika og gera áætlun um hvernig það verður best gert. Það þarf græna skatta og hvata. Ákvæði eru í stefnuyfirlýsingunni um að færa skattkerfið meira í slíka átt. Það þarf fjármagn. Ekki kosta allar aðgerðir fé en það er vart hægt að ráðast í verkefni af þessari stærðargráðu án þess að kosta neinu til. Það þarf skilning. Við þurfum að innleiða loftslagssjónarmið í áætlanir ríkisvaldsins þar sem það á við. Það þarf hugvit. Íslenskir vísindamenn og fyrirtæki hafa náð frábærum árangri varðandi loftslagsvænar lausnir. Þar er auðlind sem þarf að virkja betur. Síðast en ekki síst þarf vilja. Það þarf gott samstarf og samráð. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið getur ekki eitt og sér tryggt árangur. Stjórntækin eru mörg og kannski flest í öðrum ráðuneytum en jafnvel ríkisvaldið allt megnar vart að breyta því sem þarf. Hér þurfa allir að leggjast á árarnar; atvinnulífið, sveitarfélög, háskólar, félagasamtök og almenningur.

Við munum halda áfram að fylgja aðgerðaáætlun frá 2010 og leggja allt kapp á að ná skuldbindingum okkar innan Kyoto-bókunarinnar fyrir árið 2020. Ég hyggst setja vinnu um aðgerðaáætlun til 2030 í gang sem fyrst og stefni á að hún liggi fyrir í lok árs. Þar skiptir miklu máli að hafa gott samstarf innan stjórnkerfisins og samráð við aðila utan þess. Auk þeirrar áætlunar vil ég einnig ráðast í gerð vegvísis um hvernig við náum að lágmarka útblástur gróðurhúsalofttegunda og helst að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Það er mikilvægt að standa við skuldbindingar Íslands til 2030 en það er ekki síður nauðsynlegt að móta okkur framtíðar- og langtímasýn. Ég sé fyrir mér að loftslagsráð, sem Alþingi ályktaði um á fyrra ári, geti haft leiðandi hlutverk við gerð slíks vegvísis.

Ég reikna ekki með að allir verði sammála um allar aðgerðir og áherslur til að draga úr loftslagsbreytingum og ég tel bara hollt að skoða kosti og rökræða um bestu leiðir á grunni góðra upplýsinga. En ég er bjartsýn á að við getum fundið góðan samhljóm á Alþingi og í samfélaginu um að efla starf í loftslagsmálum og ganga til verka með vilja og bjartsýni í farteskinu.

Ísland vegur kannski ekki þungt í losunarbókhaldi heimsins en okkar breytni getur verið öðrum leiðsögn ef vel tekst til. Við getum verið stolt af hitaveituvæðingunni og þeirri staðreynd að nær 100% orku til rafmagns og hitunar kemur frá endurnýjanlegum orkulindum. Það kemur okkur svo sannarlega til góða í dag.

En við megum samt ekki sofna á verðinum. Losun á íbúa á Íslandi er nær tvöfalt meiri en í Evrópu. Við höfum ekki nýtt tækifærin nægilega vel. Markmið og skuldbindingar alþjóðasamfélagsins varðandi losun gróðurhúsalofttegunda verða strangari í framtíðinni og það verður kostnaðarsamt fyrir íslenskt samfélag, í beinhörðum peningum, ef við uppfyllum ekki okkar hluta af þeim skuldbindingum. Það er ein ástæðan fyrir því að við þurfum að efla starf í loftslagsmálum. Ekki síðri ástæða er sú að vandinn kallar á lausnir og í lausnum felast tækifæri. Íslenskt hugvit, hvort sem það er í jarðhita, grænni skipatækni eða niðurdælingu á koldíoxíði á Hellisheiði, getur fært okkur og öðrum lausnir framtíðarinnar.

Ég trúi því að Ísland geti verið forysturíki í loftslagsmálum. Forysta kallar á vit, vilja og afl. Skýrslunni um stöðu og stefnu í loftslagsmálum er ætlað að efla þekkingu og skilning á viðfangsefninu og stöðu mála. Umræðan hér getur leyst úr læðingi vilja til góðra verka. Sá vilji þarf að skila sér í pólitísku og fjárhagslegu afli til að hrinda þeim verkum í framkvæmd.

Ég þakka fyrir þetta tækifæri til að kynna þessa skýrslu og ég hlakka til að heyra hvað hv. þingmenn hafa um málið að segja og að taka þátt í umræðu áfram.