146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

staða og stefna í loftslagsmálum.

205. mál
[11:20]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég tek undir hrós til hæstv. umhverfisráðherra. Ég er mjög ánægð að sjá þær áherslur sem hafa komið fram í skýrslunni, en ég vil jafnframt hvetja hæstv. ráðherra til dáða og bjóða til samstarfs.

Ég tel nauðsynlegt, þegar við erum að tala um langtímaáætlanir, áratugi fram í tímann, að við geirneglum það með því að fá þverpólitíska sátt um þá aðgerðaáætlun og það er nauðsynlegt að þessi vinna eigi sér líka stað hér á vettvangi þingsins og ég tel nauðsynlegt að byggja á tilraunum til aukins samstarfs um stóra málaflokka.

Við Píratar höfum sett okkur mjög metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum og mig langar að reifa hana aðeins hér þannig að það sé skýrt að þessum orðum fylgir mikil ábyrgð og stuðningur úr grasrót Pírata.

Það er mjög mikilvægt, þegar við horfum á þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð í samhengi við mannkynið allt og þá miklu vá sem lífríki jarðar stendur frammi fyrir, að við tökum heildrænt á þessu. Þetta er ekki bara útblástur, þetta er lífsstíllinn, þetta er allt plastið, þetta er súrnun sjávar, neysluvenjur og klikkaðar aðferðir við að flytja vörur á milli landa. Ég gleymi því aldrei þegar ég heyrði að ein afleiðing af eldgosinu í Eyjafjallajökli hefði verið uppnám og vandræði í Kenýa af því að þar gátu bændur ekki sent túlípana til Hollands. Þetta finnst mér vera birtingarmynd rofs okkar við náttúruna og afleiðingar af gjörðum okkar.

En ég hef svo stuttan tíma að ég verð að hætta að tala frjálst og fara aðeins yfir stefnu okkar Pírata.

Loftslagsbreytingar og þær áskoranir sem þeim fylgja eru eitt allra mikilvægasta verkefnið sem stjórnmál samtímans standa frammi fyrir. Það hvaða leiðir verða valdar til að koma í veg fyrir frekari óafturkræf áhrif á lífríki jarðar og lífsgæði okkar skiptir verulegu máli.

Útrýming dýrategunda, viðvarandi þurrkar og veðurfarsbreytingar, sem áhrif hafa á uppskeru og öryggi í heiminum, eru m.a. afleiðingar loftslagsbreytinga sem þarf að halda í skefjum.

Píratar vilja að Ísland taki skýra afstöðu gegn frekari olíuleit og olíuvinnslu í efnahagslögsögunni, vilja að mengandi starfsemi greiði sérstaka mengunarrentu umfram hefðbundna skatta og að nýta skuli hagræna hvata til að draga úr útstreymi mengunar í umhverfið.

Píratar vilja að Ísland verði leiðandi í loftslagsmálum, grípi til aðgerða sem uppfylla skilyrði Parísarsamningsins og setji fordæmi fyrir aðrar þjóðir að gera slíkt hið sama.

Markmið með aðgerðastefnu Pírata í loftslagsmálum er að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og að axla ábyrgð á málaflokknum sem skilar markvissum og raunverulegum árangri og úrbótum til langs tíma.

Í þessari markmiðsáætlun okkar segir:

1. Löggjafarvaldið skal sjá til þess að í öllum samþykktum þingsins og langtímaáætlunum hins opinbera sé náttúruvernd höfð að leiðarljósi, ásamt beinum og óbeinum kostnaði vegna þeirra, þar með talið útstreymi gróðurhúsalofttegunda og annarra mengunarefna.

2. Aðilar sem losa mengandi efni í umhverfið skulu ætíð bera kostnað af slíku, í samræmi við mengunarbótareglu og varúðarreglu.

3. Útstreymi gróðuhúsalofttegunda:

a. Minnka skal losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamninginn fyrir árið 2025, um 40% og að önnur losun þessara efna verði því sem næst engin árið 2040.

b. Byggja skal upp innviði fyrir rafknúin og visthæf ökutæki og skip.

c. Ríkið skal með svipuðum hætti stuðla að og styðja mengunarminni almenningssamgöngur og notkun rafmagnsreiðhjóla.

d. Innleiða skal strax 6. viðauka við MARPOL-samninginn um varnir gegn mengun sjávar frá skipum þannig að hafið umhverfis Ísland verði ECA-svæði og að skipum sem sigla þar um leyfist að losa brennisteinsmagn innan við 0,1%.

e. Meðferð og notkun svartolíu skal vera með öllu bönnuð í landhelgi Íslands fyrir árið 2025.

f. Skip sem sigla um íslenska landhelgi án þess að leggja að höfn eiga að greiða landhelgisgjald og það sé hærra fyrir skip sem ekki hafa bláfána, umhverfisvottun eða önnur óvefengjanleg vottorð sem sýna fram á að ákvæði MARPOL séu uppfyllt í skipinu.

g. Gera skal metnaðarfulla áætlun um útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá landnotkun, svo sem framræslu, námuvinnslu, uppistöðulónum, urðun og þess háttar.

h. Stefna skal að verulega minnkaðri losun gróðurhúsalofttegunda frá dýrahaldi og jarðrækt. Taka þarf tillit til þess í nýrri landbúnaðarstefnu.

i. Efla skal skógrækt og landgræðslu á landbúnaðarlandi og á örfoka landi, en þó í samræmi við skipulagsáætlanir og aðrar reglur þar um.

j. Fara skal í markvissar aðgerðir um að ljúka endurheimt votlendis fyrir árið 2025.

k. Ísland á að taka skýra afstöðu gegn frekari olíuleit og olíuvinnslu í efnahagslögsögunni.

4. Nýta skal hagræna hvata til að draga úr útstreymi mengunar í umhverfið.

a. Öll starfsemi sem losar mengandi efni í umhverfið skal greiða mengunarrentu umfram hefðbundna skatta.

b. Mengunarrenta skal vera hærri en sú upphæð sem besta fáanlega tækni í mengunarvarnabúnaði kostar í hverju tilfelli.

c. Efla skal þekkingu, fjárhagslega hvata og uppbyggingu innviða fyrir ferðamáta með lítinn sem engan útblástur mengunarefna, svo sem gönguferðir, hjólreiðar og notkun almenningssamgangna.

d. Önnur ökutæki og vélar sem nýta jarðefnaeldsneyti skulu bera mengunarrentu í formi kolefnisskatts sem fer stighækkandi eftir því sem eldsneytisneysla og losun loftmengunarefna er meiri.

Við erum með töluvert fleiri tillögur um það hvað er hægt að gera, en þetta er allt of stuttur tími sem við höfum hér til að ræða svona rosalega stórt mál. En ég fagna þessari skýrslu, ég fagna stefnu hæstv. ráðherra og enn og aftur bjóðum við samstarf. Ég hvet hæstv. ráðherra til að líta yfir umhverfisstefnu Pírata með fókus á loftslagsmál af því að þar kennir ýmissa gagnlegra grasa og margir þeir sérfræðingar sem við höfum borið gæfu til að vinna með hafa unnið með sérfræðingum sem hafa verið til ráðgjafar fyrir ráðuneytið. Ég vona að við getum tekið þessa vinnu hér á Alþingi og að við förum í, eins og hefur komið fram, nauðsynlega áætlun og líka um það hvernig finna má fé til þess að framkvæma nauðsynlega aðgerðaáætlun í þessum málum.