146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

staða og stefna í loftslagsmálum.

205. mál
[11:29]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra kærlega fyrir þann skerf sem hún leggur hér inn í þessa umræðu, og stefnu hennar sem er svo sannarlega af hinu góða fyrir okkur, eins og fram hefur komið, af því að við stöndum vissulega frammi fyrir ákveðinni vá sem við þurfum að bregðast við ef ekki á enn verr að fara.

Við ræðum skýrslu umhverfisráðherra um loftslagsmál og ég vil af því tilefni rýna stuttlega í tölur um útstreymi sem koma fram í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um Ísland og loftslagsmál.

Ísland er aðili að Parísarsamkomulaginu frá 2015 og fullgilti það í september 2016. Í nóvember það ár lögðu íslensk stjórnvöld fram sóknaráætlun í loftslagsmálum sem miðar að því að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Þar er gert ráð fyrir að orkuskipti eigi sér stað í samgöngum, rafbílavæðing verði efld, samdrætti í losun í sjávarútvegi, loftslagsvænni landbúnaði, eflingu skógræktar og landgræðslu, endurheimt votlendis, kolefnisjöfnun í ríkisrekstri og átaki gegn matarsóun.

Útstreymi gróðurhúsalofttegunda hefur aukist á Íslandi um 15% frá 1990–2014 ef nettóbinding kolefnis er tekin með, en án hennar um 29%. Þegar við skoðum hlutdeild þeirrar flokkunar sem kemur fram í skýrslu Hagfræðistofnunar á útstreymi í prósentum er ljóst að útstreymi frá orkuframleiðslu á Íslandi er fremur lítið miðað við önnur lönd, þar sem við erum með 99% af raforkuframleiðslu hér á landi sem kemur frá vatnsafli og jarðvarma sem er talin endurnýjanleg orka. Við kyndum yfir 90% heimila á Íslandi með hitaveitu, eða því sem kallast jarðvarmaorka. Heildarútstreymi frá orkuframleiðslu árið 2014 á Íslandi telst vera 5%, það eru því mikil sóknarfæri hér. Við eigum að nýta okkur í enn ríkari mæli þessa hreinu og endurnýjanlegu orkugjafa. Sjónmengun vegna raforkulína hlýtur að vega minna þegar til kastanna kemur en orkunotkun, svo sem með kolum og olíu sem auka útstreymi gróðurhúsalofttegunda með tilheyrandi afleiðingum. Það er sláandi að vita til þess að t.d. Síldarvinnslan á Neskaupstað þarf að brenna milljón tonnum af olíu árlega í starfsemi sinni vegna þess að raforku er ekki hægt að fá. Það segir okkur að við þurfum fyrr en seinna að taka ákvörðun um hvernig við ætlum að leggja byggðalínu sem er mjög mikilvægt fyrir atvinnuuppbyggingu og mikilvægt fyrir það að draga úr útblæstri og gróðurhúsalofttegundamengun.

Ef við lítum til samgangna þá er heildarútstreymi frá þeim um 19% og það kemur langmest frá þeim ökutækjum sem fara um vegina eða 93%. Innanlandsflugið, sem maður hefði kannski haldið að ætti stærri hlut, er ábyrgt fyrir 5% og strandsiglingar um 2% af þessum 19% í heildina.

Frá sjávarútvegi hefur dregið úr útblæstri og er um 10% árið 2014 og langmest, 98%, kemur auðvitað frá fiskiskipaflotanum. Það sýnir mikilvægi þess að við getum rafvætt fiskiskipaflotann og sent hann úr höfn með raforku sem kemur frá endurnýjanlegum orkulindum.

Það er sláandi að 45% af heildarlosuninni koma frá iðnaði og efnanotkun. Þar er auðvitað mesta útstreymið frá álframleiðslu eða 67%. Frá öðrum, svo sem eins og járnblendi, koma 18% og 7% frá byggingarstarfsemi. Heildaraukning útstreymis í þessum flokki er 79% frá árinu 1990–2014. Það er þó vert að benda á að álframleiðsla á Íslandi jókst á þessum árum tífalt, úr 88 þús. tonnum í 839 þús. tonn og að losun á hvert tonn hér á landi er með því allra minnsta í heiminum í dag.

Skógrækt og landgræðsla er auðvitað mótvægið og hafa bundið 4,2 millj. tonna af kolefni á árunum 1990–2014. Árið 2014 var heildarútstreymi 4.600 tonn en bindingin í gegnum skógrækt og landgræðslu 429 þús. tonn. Mjög mikilvægt er að horfa til þess að auka enn frekar skógrækt og landgræðslu og auðvitað þarf að fara í aðgerðir sem virka í því að draga úr útblæstri og gróðurhúsalofttegundum og þeirri stöðu sem við erum í núna. Til þess sameinuðust þjóðir heims í Parísarsamkomulaginu.