146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

staða og stefna í loftslagsmálum.

205. mál
[11:36]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir skýrsluna og þá umræðu sem á sér stað hér í dag. Við Framsóknarmenn höfum lagt og leggjum mikla áherslu á loftslagsmálin. Það eru nokkrar alheimsvár sem steðja að okkur í heiminum og er mikilvægt að þjóðir heims takist á við þær sameiginlega. Loftslagsmálin eru þar augljóslega sýnu stærst með tilheyrandi neikvæðum áhrifum um allan heim, misskiptingu gæða og alvarlegum umhverfisafleiðingum, eins og til að mynda gætu orðið hjá okkur vegna súrnunar hafsins.

Það eru reyndar fleiri mál sem eru þess eðlis eins og sýklalyfjaónæmi og mengun almennt talið sem virðir engin landamæri og er mikilvægt að öll lönd takist á við hana. Þess vegna er það jákvætt fyrir okkur Íslendinga að staða okkar er almennt mjög góð.

Við tókum virkan þátt í vinnu við Parísarsamninginn og náðum sem betur fer samkomulagi við ríki heims í desember 2015 og ári síðar var samkomulagið gengið í gildi á heimsvísu m.a. vegna þess að Ísland fullgilti samninginn í september 2016 og var meðal 55 fyrstu ríkjanna til þess.

Eins og fram kemur í skýrslunni er hér í gildi aðgerðaáætlun frá 2010 um takmörkun losunar til 2020 og er rétt að geta þess að á fyrsta tímabili Kyoto-bókunarinnar, þ.e. 2008–2012, stóðumst við kröfurnar sem gerðar voru. Það er nauðsynlegt að gera nýja aðgerðaáætlun og ég tek undir með hæstv. ráðherra um það hvernig Ísland ætlar að ná yfirlýstum markmiðum sínum til 2030. Parísarsamningurinn gerir einnig ráð fyrir því að árið 2020 verði ríki heims búin að mynda sér skoðun á einhvers konar vegvísi um minnkun losunar til 2050.

Það sem mér fannst skorta í þessa skýrslu, og ætla að gagnrýna ráðherra aðeins og fara örlítið yfir það, er að það hefur ýmislegt verið gert. Til að mynda er lítið fjallað um sóknaráætlun sem fráfarandi ríkisstjórn setti á laggirnar, skýrslu sem umhverfisráðuneytið gaf út í október 2016 og ætti að vera í fersku minni hjá hæstv. ráðherra vegna þess að Parísarsamningurinn tók þá gildi á heimsvísu. Sóknaráætlunin sem ríkisstjórnin samþykkti í loftslagsmálum í aðdraganda Parísarfundarins 2015 byggir á 16 verkefnum. Hún gildir til þriggja ára og er fyrsta heildstæða áætlun Íslands í loftslagsmálum sem byggir á fjármögnuðum verkefnum og er ekki síst ætlað, eins og ráðherra kom inn á, að virkja fólk fleiri til góðra verka á þessu sviði, þ.e. fulltrúa atvinnulífs, vísindamenn, stofnanir og almenning. Ég kem aðeins inn á það síðar.

Mig langar að nota tækifærið og spyrja ráðherra hvort ekki standi til að fylgja þessari áætlun eftir þar er um að ræða 250 millj. kr. á ári til næstu þriggja ára. Þar á meðal eru 67 millj. kr. til þriggja ára ætlaðar í rafbílavæðinguna. Kannski er það ekki nóg, en við erum á einhverjum stað, það er búið að gera ýmislegt og það er komið vel á veg sem til stóð að gera. Það er þá hægt að bæta í það, en stendur ekki til að standa við það?

Það er mjög áhugavert verkefni sem heitir Hafið sem mjög margir taka þátt í og er gott dæmi um fulltrúa atvinnulífs, vísindamenn, stofnanir, fjármálastofnanir, stjórnmál og stjórnsýsluna og aðra sem koma að því máli, sem er vegvísir um samdrátt í losun í sjávarútvegi. Ég veit ekki annað en að sjávarútvegurinn treysti sér til þess að minnka losun um 40%, m.a. með því að endurnýja skip, vegna þess að eitt af því sem er jákvætt við fiskveiðistjórnarkerfið á Íslandi, kvótakerfið, er að sóknin er ódýrari, skip nota minni af olíu. Við höfum séð það mjög skarpt síðustu árin. Þar er verið að setja 10 millj. kr. á ári næstu þrjú ár.

Í landbúnaði, sem þarf vissulega að taka líka til sín, eru um 10 millj. kr. settar á ári næstu þrjú árin. Á verkefnasviði skógræktar eru settar 65 millj. kr. næstu þrjú ár. Þannig mætti lengi telja. Landgræðsluskólinn sem er mikilvægt þróunarverkefni þar sem við erum að koma að og einnig setjum við um 1 milljón dala, eða 200 þúsund dali á ári í fimm ár, í græna loftslagssjóðinn, þennan alþjóðlega.

Mig langar, af því að það gengur nú hratt á tímann, að spyrja ráðherra tveggja, þriggja spurninga. Mér finnst sem sagt vanta í þessa skýrslu umfjöllun um þróun á almennum raforkumarkaði á Íslandi. Það eru vísbendingar um að rafmagn skorti víða. Það eru líka vísbendingar um að það sé orðið ódýrara að nota olíu á sumum svæðum landsins og það standi atvinnulífi fyrir þrifum með augljóslega neikvæðum afleiðingum. Þá komum við að rammaáætlun sem er óbreytt hvað virkjunarkosti varðar.

Mig langar líka að nota tækifærið þó að það tengist þessu ekki beint, en óbeint. Ef við ætlum að fara að framleiða hér rafmagn til sölu til útlanda gegnum sæstreng, hvernig ætlar ráðherrann að taka á því? Þetta tengist nefnilega allt loftslagsmálum. Hvaða verkefni erum við að vinna hér, m.a. í stóriðju, þar sem við notum vistvæna, endurnýjanlega raforku til að framleiða vöru? Og svo segjum við og ný ríkisstjórn: Það er búið að taka stór skref í loftslagsmálum á Íslandi með því að hætta að ívilna til stóriðju. Gott og vel. Við erum kannski komin með nóg af slíkum verkefnum. En verður þá afleiðingin sú að farið verði í slík verkefni á öðrum svæðum, annars staðar í heiminum þar sem kolaver eru nýtt? Hver eru þá heildaráhrifin í loftslagsmálum í heiminum? Við þurfum að ræða loftslagsmál sem alheimsvandamál en ekki séríslenskt vandamál. Við stöndum okkur nefnilega býsna vel.