146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

staða og stefna í loftslagsmálum.

205. mál
[11:42]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Þessi mál, loftslagsmál, eru til umræðu víða um heim og mig langar í þessari ræðu að gera að umtalsefni grein sem birtist í seinustu viku í tímaritinu The Economist sem heitir „Clean Energy's Dirty Little Secret“, þ.e. hið skítuga leyndarmál hreinu orkunnar. Reyndar held ég að ritstjórar þessa blaðs hafi kannski beitt ákveðnum stílbrögðum til að draga lesendur inn í efnið vegna þess að þegar greinin er lesin kemur í ljós að margt jákvætt er að gerast í þessum efnum. Engu að síður er bent á ákveðnar áskoranir sem tengjast þessum málum og ég held að það sé gott fyrir okkur að hafa þær í huga. Eins og nefnt hefur verið hér er þetta vandamál á heimsvísu og það er gott fyrir okkur að vita hvað það er sem vinir okkar í öðrum löndum þurfa að berjast við og hugsanlega draga af því einhverjar ályktanir fyrir Ísland einnig.

En ég ætla að lýsa þessari uppsetningu með ákveðinni dæmisögu. Við getum ímyndað okkur að við séum með bæ á meginlandi Evrópu, í Þýskalandi, bæ sem er keyrður í gang með svona 100 megavöttum, raforkuþörf hans er um 100 megavött. Bærinn er með gamaldags kolaorkuver sem annar þessari eftirspurn. Íbúar bæjarins eru meðvitaðir um umhverfið og krefjast þess að því verði komið í gegn að bærinn verði drifinn áfram af miklu umhverfisvænni raforkukostum þannig að farið er í fjárfestingar í vindorku. Ef þetta er gert á þeim tíma þegar kreppa er í gangi, eins og hefur verið að gerast á undanförnum árum, fyrir 2010 t.d., fæst í raun miklu meiri raforkugetu án þess að þörfin fyrir raforkuframleiðslu hafi aukist. Hvað gerist þá? Jú, þá lækkar raforkuverð sem gerir það að verkum að þörfin til að fjárfesta í raforkubransanum minnkar og menn fara þá ekki að fjárfesta í að endurnýja gömul kolaorkuver heldur verður fjárfestingin öll á þeim sviðum þar sem beitt er ríkisívilnunum, sem á við um vindorku.

En gott og vel, þetta tekst vel og nú eru menn komnir með fínar vindmyllur sem geta annað raforkuþörf þessa bæjar á sama tíma og kolaorkuverið er áfram til staðar. Það er kannski bara ágætt, menn eru ánægðir með þessa útkomu. En kannski er örlítið verra að reka kolaorkuverið núna en áður vegna þess að vindorkan er notuð í hvert skipti sem vindar blása en kolaorkuverið er einungis notað þegar er logn. Þegar tekið er saman lægra raforkuverð, auknar kvaðir oft á mengandi raforkuframleiðslu og þá staðreynd að það er alltaf betra að nota vindorku, þá er það orðið einungis „backup“-plan að nota kolaorkuverið sem þýðir að rekstrargrundvöllur þess minnkar. Menn ætla kannski að fara að loka því en þá segja íbúarnir: Nei, nei, þið getið það náttúrlega ekki, vegna þess að þetta er nauðsynlegt kerfi fyrir okkur til að bregðast við þegar vindar blása ekki. Ein niðurstaðan af þessu verður þá að fara að styrkja og beita ríkisstuðningi við kolaorkuverið til að það fari ekki. Þetta er ekki bara einhver tilbúin dæmisaga, þetta hefur verið að gerast. Þetta hefur gerst í Evrópu, Bandaríkjunum og Kína. Þetta er áskorun sem menn þurfa að takast á við og áskorun sem felst m.a. í því að mörg raforkukerfi þessara landa eru ekki byggð í kringum raforkuframleiðslu þar sem þáttur endurnýjanlegrar orku og þáttur orku sem er hverful er jafn stór. Þau eru byggð í kringum raforkuframleiðslu sem byggir á kolum og kjarnorku og olíu þar sem menn geta nokkurn veginn stjórnað því hversu mikið af raforkunni er framleitt hverju sinni.

Til að bregðast við þessu eru í greininni lagðir til nokkrir hlutir sem þarf að hafa í huga. Í fyrsta lagi að breyta dreifikerfum þannig að þau geti betur brugðist við þess háttar raforkuframleiðslu og í öðru lagi að finna betri leiðir til að geyma raforku, bæði einhvers staðar í framleiðsluferlinu og síðan einnig hugsanlega á heimilum fólks með framleiðslu á betri rafhlöðum. Í þriðja lagi að breyta kannski verðlagningaraðferðum við að rukka fyrir raforku til að hægt sé að dreifa álaginu í kerfinu betur.

Það er ágætt fyrir okkur að hafa þetta í huga því að þrátt fyrir að raforkuframleiðsla okkar byggi að langstærstum hluta á endurnýjanlegri orku sem hægt er að stýra hversu mikið er framleitt af, þ.e. vatnsfallsorku, þannig að við erum mjög heppin hvað það varðar, en við erum að fara út í áætlun um orkuskipti í samgöngugeiranum og þar gætum við að einhverju leyti lent í svipuðu vandamáli. Við ætlum að setja fjármuni í það og hvetja fólk til að nota umhverfisvæna orkugjafa en verðum með einhvers konar „backup“-kerfi sem mun áfram byggja á gamaldags og mengandi orkugjafa sem er bensín. Við þurfum að hafa í huga hvort við getum eitthvað lært af þessari reynslu þannig að við endum ekki á því að setja miklar fjárfestingar í þetta hreina kerfi en þurfum síðan með einhverju móti að niðurgreiða hið óhreina vegna þess að við viljum halda í það á meðan þessi orkuskipti ganga yfir.

Mér fannst þetta athyglisverður punktur og mig langaði að deila honum með þingheimi og þeim sem á hlustuðu.