146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

staða og stefna í loftslagsmálum.

205. mál
[12:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa ágætu skýrslu. Í henni er reifuð ágætlega sú staða sem er í loftslagsmálum í dag og að sjálfsögðu er líka imprað á því hvað við getum gert til framtíðar. Í sjálfu sér er kannski ekki margt nýtt sem kemur fram í þessari skýrslu nema helst þá athugun Hagfræðistofnunar Háskólans sem er viðbót inn í þá umræðu sem við höfum haft um loftslagsmál í langan tíma.

Minnst hefur verið á sóknaráætlun í loftslagsmálum sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks setti af stað. Það er ánægjulegt að sjá að núverandi ríkisstjórn hyggst, eins og ég skil þetta mál allt saman, halda áfram með þá áætlun. Að sjálfsögðu byrjaði allt þetta ferli í raun löngu fyrr.

Það er mikilvægt að hafa í huga að Ísland er ekki einangrað þegar kemur að umræðum um loftslagsmál. Við erum hluti af hinum stóra heimi, því hnattræna vandamáli sem loftslagsmálin eru. Þar af leiðandi þurfum við einnig að horfa á málin út frá því sjónarhorni, ekki eingöngu út frá okkur sjálfum.

Ég ætla að láta vera á þeim stutta tíma sem ég hef að fara nákvæmlega yfir þær aðgerðir sem mögulegar eru á Íslandi en vil þó segja eitt: Við megum hvergi hverfa frá þeirri áætlun sem við höfum haft uppi um að rafbílavæða landið og einnig að auka meðvitund almennings um það hvernig hann getur dregið úr losun, ekki eingöngu gróðurhúsalofttegunda heldur líka farið betur með umhverfið almennt, þ.e. að flokka sorp og þess háttar.

Ísland er ekki einangrað fyrirbæri í þessu öllu saman og því þarf núverandi ríkisstjórn að einbeita sér áfram að þeim alþjóðlegu verkefnum sem Ísland hefur tekið þátt í, staðið að baki eða jafnvel haft forgöngu um að stofna til. Mig langar að nefna svokallaðan samstöðuhóp um nýtingu jarðhita á heimsvísu, Global Geothermal Alliance, sem Ísland átti ásamt IRENA, sem er alþjóðastofnun um endurnýjanlega orku, frumkvæði að því að stofna. Hann var settur á fót í París, á fundinum stóra og merkilega. Þetta er mikilvægur vettvangur til að auka þekkingu og notkun jarðhita í heiminum.

Jafnframt ákvað síðasta ríkisstjórn að setja 1 millj. dollara í græna loftslagssjóðinn á árunum 2016–2020 og það er mikilvægt að standa við það og halda áfram að styrkja þann sjóð.

Síðan er ljóst að Ísland tekur við mikilli ábyrgðarstöðu þegar kemur að norðurslóðum innan fárra ára. Það er mjög mikilvægt að í þeim pakka sem við leggjum til, sem formennskuþjóð á þeim tíma, verði horft sérstaklega til loftslagsmálanna. Við höfum reyndar lagt áherslu á það innan norræna samstarfsins, ekki síst Norðurskautsráðsins, að verkefni tengd loftslagsbreytingum og umhverfisbreytingum á norðurslóðum fái næga athygli.

Að endingu vil ég nefna varðandi þennan alþjóðlega vinkil að það er mjög mikilvægt að við deilum þekkingu okkar og reynslu innan alþjóðasamfélagsins. Þá á ég við Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Við höfum m.a. styrkt sérstaklega Landgræðsluskólann sem er mjög mikilvægur og getur lagt gríðarlega mikið til málanna á alþjóðavettvangi og alheimsvettvangi ef við kynnum og sýnum fólki og heiminum þann árangur sem við höfum náð í landgræðslumálum.