146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

staða og stefna í loftslagsmálum.

205. mál
[12:32]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka skýrsluna og margt í orðum ráðherra. Þetta er mál málanna. Við ætlum að vona að ráðherrann sé vandanum vaxinn og ráðuneytið sé vandanum vaxið, þingið, Stjórnarráðið og þjóðin öll. Í skýrslunni er viturlega skrifað um heildstæða loftslagsstefnu. Það er rétt og vel skrifað um leiðir að minni losun og aukinni bindingu. Það er rétt skrifað um samstöðu í baráttunni. Við erum alltaf til í það, Vinstri græn, að lofa það sem vel er gert og hefur verið gert. Það hafa orðið framfarir. Það kom fram í máli annars hv. þingmanns að sveitarfélög eru farin að standa sig ágætlega, en það eru mörg verkefni fram undan. Ég ætla að tæpa á nokkrum atriðum. Þetta eru spurningar eða ábendingar.

Aðeins um aðgerðaáætlunina. Það er sagt í plagginu að vinna við að útbúa hana, sem er auðvitað of seint í sjálfu sér miðað við hvenær við gerðumst aðilar að Parísarsamkomulaginu, hefjist fljótlega. Nú spyr ég: Hvenær? Það ætti að vera hægt að hafa þetta nokkuð nákvæmara. Ég vona að aðgerðaáætlunin sé kostnaðargreind þannig að við vitum hversu mikla fjármuni við þurfum að finna. Ég vona að hún sé líka magntölugreind þannig að við vitum hver mörkin eru, að hverju skuli stefna.

Eini árangur í minni losun í bili má kalla að sé það sem gerst hefur í sjávarútvegi. Annað er aukning. Það segir okkur að verkefnið er gríðarlega flókið. Við erum með sennilega eitt stærsta vistspor heims hér á Íslandi. Það er ekkert létt verk að vinda ofan af því.

Þá að hagsveiflunni. Hér er gerð ríkisfjármálaáætlun og þar kemur nokkurn veginn fram að allar verulegar viðbætur eigi að rúmast innan hagsveiflunnar. Í núgildandi fjárlögum er alveg ljóst að tölurnar um framlög til skógræktar, framlög til landgræðslu, framlag til endurheimt votlendis, eru of lágar þannig að við erum þá að fara með heilt ár, ég segi ekki til spillis, en það er dýrmætt ár þar sem aðgerðirnar eru ekki nógu öflugar. Það sama gildir um orkuskipti. Talað er um 67 milljónir á ári í þrjú ár til að styðja við rafbílavæðinguna. Hvað með annað? Hvað með metanólið? Hvað með metanið? Hvað með lífdísilinn? Þar þarf líka stuðningur ríkisins að koma fram. Hann er ákaflega lítill.

Þá kemur að rafvæðingu hafna. Það er víst 7 milljarða verðmiði á því. Ég ætla að sjá það að þetta komi inn í a.m.k. næstu fjárlög ásamt stórauknum framlögum til allra þessara mála sem ég hef nefnt. Það er alltaf þessi spurning: Hvernig ætlar núverandi ríkisstjórn að fjármagna það sem þarf að gera?

Það er talað um græna skatta eða græna hvata. Ég bíð spenntur eftir að sjá útfærsluna á því. Við höfum hjá Vinstri grænum rætt um kolefnisgjald, að það þurfi að hækka kolefnisgjald á alla kolefnisnotkun í landinu, álverin eða kísilverin, á flugið. Kemur það til greina? Alltaf snýst þetta, þegar til stykkisins kemur eins og sagt er, um fjármögnun. Svo er það kostnaðurinn við aðlögunina af loftslagsbreytingunum. Þetta er ekki bara tækifæri, það er líka mikill kostnaður sem þarf að leggja út í smám saman vegna loftslagsbreytinganna. Það er mjög mikilvægt að það komi inn í aðgerðaáætlunina líka.

Hér er svo skrifað um mengandi stóriðju. Hún er ekki lengur í boði. Það er svo sem fagnaðarefni. En ég spyr: Hafa slík verkefni verið á dagskrá umfram það sem er búið að ákveða sem eru þrjár stækkanir álvera og fjögur iðjuver sem hafa með kísil að gera? Hvað annað liggur í pípunum sem þarf að stemma stigu við? Ég er ekki viss um að það sé í raun og veru mikið vegna þess að stjórnvöld, þing, Landsvirkjun, hafa stigið frekar á bremsuna en hitt þegar kemur að þessum efnum. Þessi mengandi stóriðja er fyrir mér ekki nægjanlega skilgreind. Hvað er stóriðja? Yfir 17 megavött eins og maður veit að orkufrekur iðnaður skal miðast við? Mengunin, hvaða mengun er um að ræða? Eru þetta lofttegundir? Er þetta rykmengun? Er þetta sótmengun? Það er í raun og veru mengun af öllum iðnaði. Einhvers staðar þurfum við að setja mörk þannig að ég vil að skilgreind verði mörk sem eru þannig að við vitum hvað er mengandi stóriðja og hvað ekki.

Við hjá Vinstri (Forseti hringir.) grænum styðjum til góðra verka. Við kunnum líka að afla fjár. Ég ætla að minna á það að við höfum flutt tillögu um (Forseti hringir.) kolefnishlutlaust Ísland fyrir 2040, ekki 2050.