146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

staða og stefna í loftslagsmálum.

205. mál
[12:48]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Skýrsla hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um stöðu og stefnu í loftslagsmálum er gott og gagnlegt plagg. Það er fagnaðarefni að hæstv. ráðherra hyggst taka þessi mál föstum tökum og af einurð í samræmi við skýra stefnu ríkisstjórnarinnar um aðgerðaáætlun í samræmi við Parísarsamkomulagið. Þá efa ég ekki að góður og breiður samhljómur um þessi stefnumið í þinginu muni verða hæstv. ráðherra enn frekari hvatning til góða verka, enda mun góð samvinna milli Alþingis og ríkisstjórnar skipta máli um framhaldið.

Loftslagsbreytingar af mannavöldum er óumdeilanleg staðreynd. Þörfin til að bregðast við með samstilltu átaki á heimsvísu er síst vanmetin. Vandamálin sem fylgja loftslagsbreytingum eru heldur ekki þess eðlis að þau leynist langt inni í framtíðinni hjá framandi löndum. Nei, þvert á móti, þau eru að raungerast núna og þau varða okkur beint. Ísland er náttúrulega jaðarbyggð. Hérna eru skilin fleiri en flekaskilin, sem toga landið í sundur. Hnattræn staða og veðurskilin sem þeim fylgja staðsetja Ísland alveg rétt við mörkin á milli hins byggilega og óbyggilega heims. Það eru einmitt þau skil, sá jaðar, sem gera til að mynda miðin undan ströndum landsins svo gjöful og landið ríkt af orkuauðlindum. En þá erum við líka um leið alveg sérstaklega viðkvæm fyrir minnstu breytingum í veðri og hafstraumum. Hlutskipti jaðarbyggða er nefnilega ekki ósvipað kanarífuglinum í námunni. Það er líka af þeim sökum að það er í eðli jaðarbyggða að gæta ýtrustu varúðar gagnvart umhverfinu og taka ekki óþarfaáhættu.

Hvati til athafna gæti því varla verið sterkari hjá nokkurri annarri þjóð og skuldbindingar okkar Íslendinga eru skýrar: Við verðum og munum leggja okkar af mörkum í því hnattræna átaki sem nú fer í hönd með gildistöku Parísarsamkomulagsins. Ekki munu nein vettlingatök duga ef sameiginleg markmið okkar og ESB-landa og Noregs um 40% minnkun losunar til ársins 2030 eiga að nást. Nýleg skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands dregur upp glögga en um leið ískyggilega mynd af stöðu þessara mála. Þrátt fyrir að við blasi verulega brött brekka, ef svo má segja, er uppörvandi að lesa í þeirri skýrslu sem um ræðir að tækifæri okkar Íslendinga til að ná árangri eru margvísleg og við höfum fram til þessa dags náð gríðarlega góðum árangri. Í skýrslunni kemur fram að sameiginlega getum við haft veruleg áhrif á það sjálf hvaða árangur mun nást. Þau eru fleyg orðin að vilji sé allt sem þarf og þau eiga við nú sem endranær.

Það er engin ein töfralausn sem dugar. Við verðum og munum vinna að mótvægisaðgerðum á sem flestum sviðum. Ég nefni sérstaklega fjárfestingar í sparneytnari bifreiðum í samræmi við aðgerðaáætlun um orkuskipti sem lögð hefur verið fram í þinginu sem telur auðvitað fram nauðsyn þess að styrkja þá innviði sem þarf því samfara en jafnframt bindingu kolefnis með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis.

Frú forseti. Að sjálfsögðu verða þær áherslur að virka sem teknar verða hér fyrir, þær verða að skila sem mestum mögulegum árangri með sem minnstum þjóðhagslegum tilkostnaði. Við verðum enn fremur gæta okkur á því að festast ekki í viðjum miðstýrðra og einstrengislegra ríkislausna eingöngu heldur treysta á fjölbreytt starf rannsókna, þróunar og nýsköpunar og markaðslausna sem verða til á grundvelli þekkingar og reynslu og sannað hafa gildi sitt.