146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

skýrsla um könnun á vistun barna á Kópavogshæli.

[14:19]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að hefja sérstakar umræður í dag. Einnig þakka ég hæstv. velferðarráðherra fyrir viðbrögð hans. Það er erfitt að lýsa tilfinningunum sem vakna við lestur þessarar skýrslu. Ég starfaði lengi á leikskólanum Múlaborg þar sem ég lærði hve dýrmætt og gefandi það er að starfa með fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra. Það er ekki einungis mikilvægt að við lærum af þessari skýrslu heldur að við komum í veg fyrir að slíkt gerist aftur. Við megum aldrei gefa kost á að slík framkoma eigi sér stað með allan okkar samfélagsauð.

Mér er sérstaklega umhugað um kafla 2.4, um ákvæði stjórnarskrár, almennra hegningarlaga, barnaverndarlaga o.fl. Það er hræðilegt að lesa yfir sögu um refsingu barna og hvernig barnaverndarlögin hafa þróast, ég myndi jafnvel segja óhugnanlegt. Sem formaður velferðarnefndar legg ég til að við tökum bæði barnalögin og barnaverndarlögin til endurskoðunar. Ég tel mikilvægt að athuga að lög sem gilda um börn séu í takti við þróun samfélagsins. Ég vil einnig nefna að við megum ekki gleyma því að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er lögfestur á Íslandi.

Með leyfi forseta vil ég vitna í skýringu á barnasáttmálanum:

„Þar sem börn eru sérstaklega viðkvæmur þjóðfélagshópur er þeim þó jafnframt tryggð aukin vernd og stuðningur í ýmsum alþjóðlegum mannréttindasamningum. … Í kjölfar þeirra grófu mannréttindabrota sem börn urðu fyrir í seinni heimsstyrjöldinni jókst umræðan um nauðsyn þess að tryggja börnum aukna vernd.“

Ég velti fyrir mér hvort hæstv. velferðarráðherra gæti hugsað sér að endurskoða barnalögin og barnaverndarlögin með barnasáttmálann til hliðsjónar.