146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

skýrsla um könnun á vistun barna á Kópavogshæli.

[14:21]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hér ræðum við enn eina skýrslu sem staðfestir vonda meðferð og misbeitingu á opinberum stofnunum ríkisins, að þessu sinni vanrækslu og miskunnarlaust ofbeldi á fötluðu fólki og jafnvel litlum börnum. Við skulum þó gæta þess í umræðunni að vega ekki að fyrrverandi starfsfólki sem margt hvert sinnti störfum sínum af alúð og eftir bestu getu í samræmi við úrelt og ómanneskjuleg viðhorf. Það er mikilvægast að nýta skýrsluna til að draga af henni lærdóm. Hér var þó um að ræða heimili fólks, þar dvöldust helst þau sem bjuggu við verstu félagslegu stöðuna, með veikasta baklandið. Það sem átti að vera öruggt skjól viðkvæmra einstaklinga varð að helvíti fyrir marga.

Það voru margir sem brugðust. Nefndin telur m.a. að töluvert hafi skort á að stjórnvöld hafi markað skýra stefnu í lögum og með stefnumótun um hvers konar stofnun Kópavogshæli ætti að vera. Hún gagnrýnir hve langa tíma sem það tók stjórnvöld að uppfylla skýrar lagaskyldur að opna barnadeildir á Kópavogshæli. Vistheimilisnefnd telur ljóst að stjórnvöld hafi í verulegum mæli vanrækt að skapa skilyrði þar sem unnt hefði verið að mæta lögbundnum kröfum um aðbúnað barna. Nefndin telur að heilbrigðisráðuneytið hafi vanrækt eftirlitsskyldur sínar og loks telur nefndin að barnaverndarráð, stjórnarnefnd Ríkisspítalanna, stjórnarnefndir um málefni þroskaheftra og málefni fatlaðra og landlæknir hafi vanrækt eftirlitsskyldu með því að sinna ekki reglubundnu eftirliti.

Frú forseti. Þetta má aldrei gerast aftur og það er nauðsynlegt að Alþingi lögfesti sem fyrst áður staðfestan samning Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk og klári innleiðingarferlið. Það eru að sjálfsögðu einu raunverulegu bæturnar sem hægt er að greiða í þessu máli.