146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

skýrsla um könnun á vistun barna á Kópavogshæli.

[14:36]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Landsmenn hafa fylgst af hryggð með umræðum undanfarinna vikna um mál þau sem upp hafa komið í kjölfar skýrslu um starfsemi Kópavogshælis á tímabilinu 1952–1993, og umönnun og viðmót gagnvart einstaklingum sem áttu sér margir hverjir fáa eða enga málsvara aðra en þá sem önnuðust þá daglega.

Á umræddu tímabili breyttist íslenskt samfélag mikið. Atvinnuháttum, velferð og þekkingu fleygði fram, menntun reis og viðhorf breyttust eftir því sem tímar liðu en allt átti þetta sína sögu. Í lok 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. aðhylltust menn stefnu svokallaðra mannkynbóta í umróti þess tíma þjóðfélagsbreytinga. Stuðningur við áróður mannkynbótasinna var áberandi, um að lækka þyrfti kostnað vegna óarðbærra þjóðfélagshópa sem þeir fullyrtu að færu stækkandi. Gripið var til ýmissa óyndisúrræða, m.a. ófrjósemisaðgerða í stórum stíl. Læknisfræðilegt sjónarhorn var ráðandi í hinum vestræna heimi mestan hluta 20. aldar sem leit á fötlun sem andstæðu þess sem er eðlilegt.

Hugtakið um eðlilegt líf, eða normalíseringu, kom fyrst fram hjá dönsku fagfólki á sjötta áratugnum sem setti fram þær hugmyndir að fólk með þroskahömlun ætti rétt á að lifa eins eðlilegu lífi og mögulegt væri eins og ófatlaðir. Stofnanavistun var á þessum tíma algengasta búsetuformið og erfitt að hrinda í framkvæmd þessari hugmyndafræði sem þó hefur rutt sér til rúms fyrir atbeina fagfólks sem ötullega hefur unnið að málefnum þessara einstaklinga. Í samfélagi dagsins eru þetta talin sjálfsögð mannréttindi, viðhorfin um stofnanavistun úr sögunni og við blygðumst okkar fyrir gengin spor að þessu leyti.

Það er ekki sársaukalaust að horfast í augu við fortíðina. Gætum þess þó að dæma ekki með óréttlátum hætti þau fjölmörgu verkefni sem unnin voru af alúð og manngæsku þótt vissulega hafi þar líka verið brotalamir og jafnvel tilvik um alvarleg brot gegn einstaklingum og þau er aldrei hægt að afsaka.