146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

skýrsla um könnun á vistun barna á Kópavogshæli.

[14:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félags- og jafnréttisráðherra fyrir ræðu hans og svör við spurningum, sem og þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Ég held að við séum öll alveg sammála um það að gera þarf betur í þessum málaflokki og við viljum gera betur í málaflokknum.

Hæstv. ráðherra talaði um að í skýrslunni væri lýst vinnubrögðum fortíðar og ég held að það sé alveg rétt, alla vega að mjög miklu leyti. En eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir kom inn á höfum við líka hræðileg dæmi úr okkar samtíð. Á þeim þarf auðvitað að taka af festu vegna þess að við viljum ekki að forneskjuleg viðhorf eða vinnubrögð líðist í dag.

Ég er ánægð að heyra það að koma eigi á fót ráðuneytisstofnun til þess að sinna eftirliti með þjónustunni vegna þess að ég held að eftirlitið sé mikilvægt. Ég tek líka undir það sem hefur verið sagt hérna um samning Sameinuðu þjóðanna og lögfestingu hans, því að það hlýtur að vera vilji okkar allra að þetta séu ekki bara orð á blaði heldur að þeim sé virkilega framfylgt, þeirri hugmyndafræði sem þar er sett fram. En þar verður hins vegar að fylgja fjármagn og það verður að fylgja starfsfólk sem starfar í þágu fatlaðs fólks. Ég held að það sé alveg rétt að starfsfólk almennt í þessum geira sinnir starfi sínu af mikilli alúð. En þegar skortur er á starfsfólki þá getur fólk einfaldlega ekki gert jafn vel og það vill gera.

Ég vil sérstaklega fagna því að ráðherra tók undir með mér að húsnæðismál fatlaðs fólk væru í alvarlegri stöðu. Mig langar að lokum að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki örugglega tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að fólk fái aðstoð inn á heimili sín þannig að stofnanir, (Forseti hringir.) hvort sem þær eru stórar eða litlar eins og við höfum í dag, verði í raun óþarfar (Forseti hringir.) því að fólk fái aðstoðina til sín en þurfi ekki að fara eitthvert annað til að fá þá þjónustu sem því er nauðsynleg.