146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

matvælaframleiðsla og loftslagsmál.

[14:44]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Fyrir skömmu átti sú sem hér stendur gott samtal við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, í sérstökum umræðum um matvæla- og fæðuöryggi, innflutning og ESB-samning, breytingar á styrkjakerfi landbúnaðarins og fleira sem tengist matvælaframleiðslu og framtíð hennar. Umræðan var góð en það sem situr eftir eru orð ráðherra um áherslur núverandi stjórnvalda á hag neytandans, þ.e. verð og vöruúrval í verslunum. Að lokinni þeirri sérstöku umræðu taldi ég þörf á að fara dýpra í þessi mál, og þá út frá loftslagsmálum. Við þurfum að ræða stefnuna í tollamálum og styrkjum til landbúnaðarins, en við verðum líka að geta rætt matvælaframleiðslu á Íslandi út frá miklu víðara sjónarhorni. Hlutirnir snúast ekki eingöngu um krónur og aura og hver græðir hvað, heldur langtímasýn á hag þjóðar, öryggi hennar og ábyrgð okkar í hnattrænu samhengi. Þannig að matvælaframleiðslan nær ekki eingöngu til ráðherra landbúnaðar og sjávarútvegs og umhverfisráðherra, heldur einnig menntamálaráðherra, heilbrigðisráðherra og svo mætti lengi telja. Ég hyggst halda umræðunni áfram um matvælaframleiðslu og þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir að vera tilbúin að ræða þessi mál við okkur í dag.

Skýrsla nefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem kom út á dögunum, er umhugsunarverð. Þar er talið að loftslagsbreytingar muni ógna fæðuöryggi jarðarbúa í framtíðinni. Mat skýrsluhöfunda er að framboð á matvælum muni ekki haldast í hendur við fjölgun jarðarbúa á næstu áratugum. Þessar fréttir kalla á að við Íslendingar metum stöðu okkar hvað varðar bæði matvælaframleiðslu og framleiðslu á innlendum orkugjöfum. Við þurfum að huga að því hvað við getum lagt af mörkum í loftslagsmálum og landbúnaðurinn er hluti af lausn vandans, þar með talið framlag bænda til aukinnar framleiðslu fóðurs og matvæla á Íslandi.

Við þurfum að passa upp á landbúnaðinn okkar, hann þarf að vera arðsamur, og til að takast á við breytta tíma eiga rannsóknir, ráðgjöf og þróunarstarf að vera í lykilhlutverkum. Menntun í búfræði og garðyrkju þarf að taka mið af þessu, það hefur úrslitaáhrif varðandi nýliðun og fjárfestingarvilja. Þó að við þekkjum ekki alls kostar þær breytingar sem kunna að verða á ræktunarskilyrðum og tegundavali vegna loftslagsbreytinga virðist ljóst að allar sviðsmyndir krefjast þess að góð ræktar- og beitilönd séu varðveitt og varin hvers konar eyðingu.

Við þekkjum heldur ekki hvernig heimsviðskipti með matvæli munu þróast og hvort það verður með þeim hætti að það skapi frekari útflutningstækifæri fyrir okkur. Það er vel líklegt. Þó læðist að sá grunur að áhugi alþjóðasamfélagsins á að eyða of mikilli orku í að flytja til mat á milli svæða gæti minnkað.

Hæstv. forseti. Við Íslendingar þurfum að sýna ábyrgð í verki varðandi hnattræn áhrif loftslagsbreytinga og laga okkar samfélag að þeim. Langflutningar matvæla valda miklum útblæstri gróðurhúsalofttegunda og því getur aukinn innflutningur matvæla á kostnað innlendrar framleiðslu aðeins aukið loftslagsvána.

Ég er hér með skýrslu um kolefnisspor garðyrkjunnar sem Samtök garðyrkjubænda létu vinna fyrir sig. Í henni er mjög margt áhugavert, t.d. að íslenska agúrkan skilur einungis um 44% af kolefnisspori eftir sig miðað við þá innfluttu.

Auknir flutningar matvæla kalla á aukin afföll miðað við að fæðunnar sé neytt sem næst framleiðslustað. Þar við bætist aukinn umbúðakostnaður. Allt eykur þetta efnis- og orkunotkun og þar með eykst útblástur gróðurhúsalofttegunda. En það sem fremur hefur verið í umræðunni á seinni árum er hreinlega sóun matvæla sem neytendur eru búnir að kaupa í verslunum. Um árabil var þessu vandamáli ekki gefinn gaumur hér á landi en nú er verið að taka til hendinni og er ánægjulegt hve vel hefur tekist að vekja athygli á þessari stórfelldu eyðileggingu matvæla.

Miðað við að verið sé að henda um fjórðungi af þeim mat sem keyptur er verður það að teljast stórmál. Betri nýting á matnum hlýtur að vera mikið hagsmunamál neytenda og er einnig framlag til umbóta í loftslagsmálum.

Mikið hefur verið rætt um framlög til skógræktar og landgræðslu en í seinni tíð hafa verið miklar væntingar til jákvæðra áhrifa endurheimtar votlendis. Ég sé að tími minn er að líða þannig að ég ætla að ljúka þessu hér og fjalla ekki meira um votlendi í þessari ræðu en kem kannski nánar að því á eftir.

Mig langar til að heyra sjónarmið ráðherra varðandi ofantalin atriði, þ.e. stefnu hennar og verkefni í ráðuneytinu tengd matvælaframleiðslu og mikilvægi hennar í tengslum við fæðuöryggi og loftslagsmál, endurheimt votlendis — við ræddum reyndar um skýrsluna hér fyrr í dag — og áhrif þess á ræktarland, fækkun kolefnisspora með því að auka innlenda matvælaframleiðslu og draga úr flutningi matvæla og verkefni gegn matarsóun.

Hver er stefnan, hæstv. ráðherra?