146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

matvælaframleiðsla og loftslagsmál.

[14:55]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Hún kemur inn í það þema sem við höfum ákveðið að heiðra hæstv. umhverfisráðherra með á afmælisdeginum, eins og komið var inn á í morgun. Við erum að ræða dálítið mál málanna sem er loftslagsmál. Ég hef þá sýn á loftslagsmál og matvælaframleiðslu eins og með annað að horfa þarf heildrænt á þetta. Það er það sem mér hefur þótt dálítið skorta á, að loftslagsmál séu tekin föstum tökum, að þau séu til grundvallar öllum ákvörðunum stjórnvalda, stærri ákvörðunum eigi að fylgja loftslagsreikningur. Hver eru t.d. áhrif stefnu hæstv. ríkisstjórnar um að auka innflutning á matvælum? Er búið að reikna það út?

Ég heyrði hæstv. ráðherra áðan tala um að hæpið væri að banna innflutning á grundvelli loftslagsraka og hæstv. ráðherra velti því fyrir sér hvort væri meira vistspor af innflutningi eða innlendri framleiðslu. Mér finnst að við eigum ekki að vera á þeim stað að við séum að velta því fyrir okkur. Mér finnst að við eigum að vera á þeim stað að við eigum að vita það áður en við tökum ákvörðun um hvað við gerum. Hver eru loftslagsáhrif landbúnaðarins? Það er eitthvað sem við eigum að skoða. Verða þau reiknuð út í endurskoðun búvörusamninga? Hæstv. ráðherra gaf ádrátt um að svo yrði. Sjávarútvegurinn kemur þar inn í. En almennt séð finnst mér að við eigum ekki að taka ákvarðanir sem byggja á einhvers konar hugmyndafræði eingöngu, eins og t.d. að auka innflutning, sem er sumum stjórnmálaflokkum mikið kappsmál, án þess að vera búin að skoða í þaula hvað það þýðir.

Nú veit ég ekki hvort ég á að hætta mér út í að fara með tölur en vel yfir 10% af öllum útblæstri kemur af matvælaflutningi. (Forseti hringir.) Hvað þýðir það? Við þurfum að fá að vita það nákvæmlega, svart á hvítu, getað borið saman til að sjá hvort er heillavænlegra þegar kemur að loftslagsmálum.