146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

matvælaframleiðsla og loftslagsmál.

[15:00]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir umræðuna. Í íslenskri matvælaframleiðslu höfum við fækkað umtalsvert slátrunar- og urðunarstöðum kjöts. Með hertari reglum um urðun og förgun keyrum við langar leiðir með heila og aðra taugavefi til förgunar. Jafnframt keyrum við langar leiðir með gripi til slátrunar, en margt af þessu er gert í nafni hagræðingar. Með þessum ráðagerðum erum við að hagræða á kostnað umhverfisins. Við þurfum að taka þessi málefni til endurskoðunar. Við þurfum að stytta vegalengdir sem gripir fara til slátrunar og jafnframt hættulegir vefir til förgunar.

Með fyrirkomulagið eins og það er uppsett í dag þarf einhver hluti bænda að fara allt að 600 km leið til þess að fá hættulegum vefjum fargað. Jafnframt er erfitt að marka sér sérstöðu með upprunamerkingum. Með því að greiða leið til heimaslátrunar fækkum við lítrum af brenndu eldsneyti í flutningum og jafnframt framleiðum við verðmætari og umhverfisvænni vöru. Með því að fjölga förgunar- og urðunarstöðum nær heimahögum minnkum við kolefnisspor við slátrun. Við verðum að fara að hugsa um þessa hluti heildrænt með það að leiðarljósi að minnka brennslu eldsneytis og greiða leið til nýsköpunar.

Við þetta má bæta að við urðum enn allt of mikið af afurðum sem annars væri hægt með útsjónarsemi að koma í verð. Urðun kjötúrgangs er með því versta sem við getum gert landinu. Úr þessum úrgangi er hægt að framleiða kjötmjöl og beinmjöl sem síðan verður að einhverjum hluta notað sem áburður, jafnframt er mjölið notað í dýrafóður. Í hallæri er kjötmjöl staðgengill fyrir brennslu kola. Er það vottað sem kolefnishlutlaust eldsneyti. Ísland hefur því sóknarfæri í fullnýtingu á úrgangi kjötafurða.