146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

matvælaframleiðsla og loftslagsmál.

[15:15]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að tala tvisvar um loftslagsmál á einum degi hér í þinginu, enda eru þau eitt stærsta málið sem mannkynið glímir við í dag. Ég hegg eftir því að þegar talað er um mat og matvælaframleiðslu hérlendis tala þingmenn einvörðungu um dýraafurðir. Við höfum framleitt grænmeti hérlendis en við höfum því miður ekki fundið leiðir til þess að tryggja að þeir sem stundað hafa þannig framleiðslu fái orku á nægjanlega góðu verði þannig að við þurfum ekki að flytja inn grænmeti sem við erum vön að framleiða sjálf. Ég minnist gróðurhúsanna í Hveragerði í gamla daga þar sem maður gat stokkið inn og keypt sér tómata, gúrkur og paprikur.

Það eru ótrúlega mörg sóknarfæri í því að breyta því hvernig við notum orkuna, ótrúlega mikil. Ég kalla eftir því að það sé tekið inn í langtímaáætlunina sem stendur til að gera í umhverfisráðuneytinu, að skoða þann þátt sem hér hefur verið tekinn út fyrir sviga.

Ég er alveg sammála þeim þingmönnum sem rætt hafa um að nauðsynlegt sé að gera allt sem við getum til að tryggja að það sé styttra á milli þegar kemur að því að flytja vörur fram og til baka, hvort heldur sem það er innan lands eða til landsins. En við verðum að hafa það í huga að við eigum enn eftir að tala um risastóran þátt. Það er ástandið á hafinu í kringum landið. Það er rosalega stór þáttur og ef við tökum það ekki inn í þessa vinnu munu margir vakna upp við mjög vondan veruleika eftir ekki það langan tíma.