146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

matvælaframleiðsla og loftslagsmál.

[15:17]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Það er markmið ríkisstjórnarinnar að samrýma enn betur hagsmuni bænda sem matvælaframleiðenda, hagsmuni neytenda og hagsmuni umhverfisins, eins og hefur reyndar ítrekað komið fram hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í umræðum um málið. Ég tel mikilvægt í því samhengi að landbúnaðarkerfi okkar sé skoðað sem hluti af markvissri byggða- og atvinnustefnu og að stuðningi við bændur verði þannig fyrir komið að hann stuðli að aukinni hagræðingu, framleiðniaukningu og nýsköpun í greininni. Bændur eru sjálfir best til þess fallnir að tryggja fjölbreytt úrval matvæla í sátt og samlyndi við umhverfið, að því gefnu að sá rammi sem þeir starfa innan, m.a. með tilliti til umhverfisverndarsjónarmiða, sé vel unnin og skýr og að neytendavernd sé jafnframt í hávegum höfð vegna þess að hún rúmast auðveldlega innan ramma umhverfissjónarmiða.

Virðulegi forseti. Við búum nú við stöðu sem í felast svo ótal mörg tækifæri en jafnframt áskoranir. Markmiðið hlýtur að vera að styðja við aukna fjölbreytni og nýsköpun í matvælaframleiðslunni á þann hátt að það hvetji til landverndar og sjálfbærra framleiðsluhátta. Við þurfum að nýta jákvæða efnahagshvata, þar með talið græna skatta, og ráðgjöf til að breyta álagi á landsvæði, efla skógrækt og landgræðslu og stýra beit sauðfjár og hrossa svo eitthvað sé nefnt. Við erum nefnilega í kjöraðstöðu hér til að gera hlutina rétt.