146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

matvælaframleiðsla og loftslagsmál.

[15:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún rímar vel við umræðu um skýrslu hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hér fyrr í dag og dregur fram eitt þeirra áhersluatriða sem fjalla hefði mátt meira um í þeirri skýrslu.

Kjötframleiðsla er ástæða um fimmtungs af losun gróðurhúsalofttegunda og þótt ekki sé gert ráð fyrir því að tekið sé á þeim þætti í fyrirhuguðum aðgerðum til að vinna gegn hlýnun jarðar er nokkuð ljóst að vistspori kjötframleiðslunnar verðum við að mæta með einhverjum hætti og það sem fyrst. Kjötframleiðsla er einnig vatnsfrek svo um munar víða um heim og fóðurrækt hefur mikil áhrif.

Til að breyta því þurfum við sem einstaklingar að breyta hegðun okkar og minnka kjötneyslu, sérstaklega við sem búum við velmegun á jörðinni. Við verðum auk þess að muna að ræktun dýra er gríðarlega mikilvægur hluti af mataröryggi fátækasta hluta heimsins og að gróðurhúsaáhrifin munu einmitt helst koma niður á þeim hópi. Óhófleg kjötneysla og framleiðsla á Vesturlöndum þar sem velmegun er mikil hefur þannig áhrif á þá efnaminnstu og fátækustu þjóðir heims.

Umhverfisráðherra Þýskalands hefur stigið táknrænt skref í ráðuneyti sínu með því að bjóða eingöngu upp á grænmetisfæði á opinberum viðburðum ráðuneytisins. Það er gert til þess að vekja athygli á því sem ég sagði hér áðan.

Við Íslendingar erum í færum til að auka fjölbreytni í fæðu, dreifa upplýsingum og beita ýmiss konar hvötum til að gera neytendum og bændum auðveldara með að hegða sér á skynsamlegan og ábyrgan hátt hvað þetta varðar. Endurskoðun búvörusamninganna stendur yfir og þar er gullið tækifæri til að leggja aukna áherslu á þátt landbúnaðarins í losun gróðurhúsalofttegunda og aðgerða til að minnka losun hér á landi.

Ég fagna þeirri áherslu sem talsmenn ríkisstjórnarinnar segja að eigi að gera í þeirri endurskoðun. Ég vona að það verði að veruleika.