146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

matvælaframleiðsla og loftslagsmál.

[15:24]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Það þarf talsvert til þess að ég verði hálffeimin, verð ég að segja, en ég ætla samt að segja að ég er búin að fá svo margar afmæliskveðjur að ég vil þakka kærlega fyrir þær. Ég ætla aldrei að eiga afmæli meðan ég er á þingi öðruvísi en bara hér, því að þetta er náttúrlega mesta egóbúst sem hægt er að fá.

En varðandi umræðuna vil ég sömuleiðis þakka hana kærlega. Loftslagsmálin eru okkur öllum ofarlega í huga og það er mjög eðlilegt og þarft að við veltum fyrir okkur: Um hvað erum við að ræða? Er ekki mikilvægt að styðja við innlenda framleiðslu? Jú, það er mjög mikilvægt. Það verðum við að gera. Við eigum að styðja helst við lífræna framleiðslu af því að hún hefur minnsta losun. Við vitum að þarna eru áskoranir í landbúnaði á Íslandi. Skýrsla Hagfræðistofnunar sýnir okkur það. Landbúnaðurinn getur gert betur og við þurfum, í formi þess styrkjakerfis sem ríkir um landbúnað á Íslandi, að beina sjónum okkar þangað. Það væru réttir hvatar og góð leið til að nýta almannafé, sannarlega.

En þegar við ræðum þetta finnst mér dálítið varhugavert einhvern veginn að tefla þessu tvennu saman og segja annaðhvort eða, annaðhvort innflutningur eða framleiðsla. Það kostar líka kolefnisbókhaldið, loftslagsbókhaldið, að flytja inn aðföng fyrir þessa framleiðslu alla. Auðvitað væri mjög gott ef við gætum sett upp flott excel-skjal og reiknað þetta niður á einhverja frábæra lausn.

Ég held samt sem áður að umræðan verði aldrei svart/hvít. Hér hafa þingmenn talað og að sjálfsögðu vill enginn banna neitt, en ég minni þá bara á að tollkvótar eru til staðar á Íslandi. Þeir eru sannarlega bann eða hömlur við öðrum innflutningi en stjórnvöldum þykir þá og þegar í lagi. Nú þegar er, má segja, bann við algjörlega frjálsum innflutningi, en mér finnst bara gaman að heyra það ef fólk telur það vera algjöra fásinnu (Forseti hringir.) út af því að landbúnaðurinn á Íslandi er þannig, og við sjáum það í grænmetinu, að hann stenst fullkomlega samkeppni. (Forseti hringir.) Íslenskir neytendur velja hann umfram annað.