146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[15:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um Seðlabanka Íslands, lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán til neytenda. Frumvarpið er á þskj. 300 og er 216. mál þingsins.

Frumvarp áþekkt þessu var lagt fram á 144. og 145. löggjafarþingi, 561. og 384. mál, en náði ekki fram að ganga. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu frá 145. þingi og vil ég vekja athygli á því að breytingarnar eru sérstaklega raktar í 4. kafla greinargerðar við frumvarpið.

Samkvæmt íslenskum lögum er veiting lána í erlendum gjaldmiðli heimil en veiting gengistryggðra lána er aftur á móti óheimil. Eftirlitsstofnun EFTA telur að slíkt bann samrýmist ekki meginreglu EES-samningsins um frjálst fjármagnsflæði.

Frumvarpið byggist að hluta á tillögum nefndar sem falið var að endurskoða bannið og á sama tíma skoða hvort þörf væri á sérstökum varúðarreglum vegna slíkra lána og erlendra lána. Almennt er talið að flest rök standi til þess að láta sömu varúðarreglur gilda um erlend lán og gengistryggð lán, enda er lítill eðlismunur á þeirri áhættu sem er samfara slíkum lánum.

Í lögum nr. 118/2016, um fasteignalán til neytenda, eru þessi lán t.d. felld undir einn hatt, þau saman kölluð lán sem tengjast erlendum gjaldmiðlum og kveðið á um ýmsar sértækar reglur, svo sem um greiðslumat og breytirétt vegna slíkra lána. Í frumvarpi þessu er nálgunin hin sama. Frumvarpið felur í sér tillögu þess efnis að gengistryggð lán verði heimiluð á ný hér á landi en að sama skapi sé gætt að neytendavernd og fjármálastöðugleika.

Mun ég nú gera grein fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til á einstökum lögum í frumvarpinu.

Eftirfarandi breytingar eru lagðar til á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001:

1. Gengistryggð lán verði heimiluð að nýju.

2. Óheimilt verði að miða lánssamning við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna þegar um er að ræða lán til neytenda.

Eftirfarandi breytingar eru lagðar til á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001:

Seðlabanka Íslands verði heimilt, í þágu fjármálastöðugleika og að fengnu áliti fjármálastöðugleikaráðs, að setja lánastofnunum reglur um útlán tengd erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu. Í reglunum getur Seðlabankinn ákveðið lánstíma, tegundir tryggingar og hámarkshlutfall lána sem tengjast erlendum gjaldmiðlum af heildarútlánasafni lánastofnunar.

Eftirfarandi breytingar eru lagðar til á lögum um neytendalán, nr. 33/2013:

1. Ávallt skuli framkvæma greiðslumat vegna lána sem tengjast erlendum gjaldmiðlum, óháð fjárhæð þeirra.

2. Lögð eru til strangari skilyrði vegna greiðslumats lána sem tengjast erlendum gjaldmiðlum en vegna neytendalána almennt.

3. Óheimilt verði að veita lán tengt erlendum gjaldmiðlum standist neytandi ekki greiðslumat.

4. Lánveitandi geti á grundvelli frekari upplýsinga frá neytanda fallist á að veita lán, önnur en lán tengd erlendum gjaldmiðlum, þrátt fyrir neikvæða niðurstöðu greiðslumats, enda sýni þær fram á að líklegt sé að neytandi geti staðið í skilum með lánið. Í dag er heimilt að veita lán þrátt fyrir neikvætt greiðslumat ef virði veða eða annarra trygginga sem lántaki leggur fram er meira en heildarfjárhæð láns þegar lánið er veitt.

5. Neytandi eigi ávallt rétt á að breyta eftirstöðvum láns sem tengist erlendum gjaldmiðlum í lán sem tengist ekki erlendum gjaldmiðlum, þ.e. heimamynt.

6. Sérstök upplýsingagjöf vegna lána með breytilegar forsendur verði afmörkuð við lánssamninga sem kalla á greiðslumat.

7. Aðrar smávægilegar breytingar sem lýst er í 4. kafla greinargerðar.

Eftirfarandi breytingar eru lagðar til á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016.

1. Samningar um fasteignalán skulu skráðir á pappír eða vera á öðrum varanlegum miðli. Allir samningsaðilar skuli fá afrit af samningi.

2. Létt verði á skilyrðum sem uppfylla þarf vegna greiðslumats lána sem tengjast erlendum gjaldmiðlum til samræmis við breytingar sem lagðar eru til á lögum um neytendalán, nr. 33/2013, enda eru þau skilyrði sem fram koma í lögunum í dag óþarflega ströng.

3. Lagt til að breytiréttur neytanda einskorðist ekki við að eftirstöðvum höfuðstóls verði breytt í íslenskar krónur heldur í lán sem tengist ekki erlendum gjaldmiðlum. Þetta er tekið fram því að ekki er áskilið í lögunum að heimamynt neytandans sé íslensk króna.

Í frumvarpinu er með ítarlegri hætti en áður gerð grein fyrir líklegum áhrifum af því að frumvarpið verði að lögum.

Ég vil sérstaklega taka fram að ekki er búist við mikilli breytingu á rekstri lánastofnana hér á landi ef gengistryggð lán verða heimiluð. Hlutdeild erlendra lána af nýjum útlánum bankakerfisins, að frádregnum uppgreiðslum, hefur aukist úr 5,6% árið 2013 í 21,7% árið 2016. Þrátt fyrir mikinn vaxtamun við útlönd, og engar lagalegar takmarkanir á lánveitingum í erlendri mynt, hefur hlutdeild lána í erlendum gjaldmiðlum ekki vaxið meira en raun ber vitni og hefur vöxturinn aðallega verið drifinn áfram af lánum til fyrirtækja sem hafa tekjur í erlendum gjaldmiðlum, svo sem sjávarútvegsfyrirtækja og ferðaþjónustuaðila. Lítinn vöxt útlána í erlendum gjaldmiðlum má rekja til takmarkaðs aðgengis íslenskra lánastofnana að erlendum lánamörkuðum eftir fjármálaáfallið haustið 2008 sem hefur þó farið batnandi undanfarna mánuði og ár með bættu lánshæfismati ríkissjóðs og bankanna sjálfra.

Takmarkanir á töku gengistryggðra lána hafa mest áhrif á almenna neytendur. Þetta kemur til af tvennu, annars vegar því að reikna má með því að færri neytendur standist auknar kröfur í greiðslumati og hins vegar vegna þess að breytiréttur neytanda mun að öðru óbreyttu auka kostnað vegna lánanna og gera þau óhagstæðari en önnur lán.

Með samþykkt frumvarpsins ætti Ísland að komast hjá málaferlum fyrir EFTA-dómstólnum vegna brota á EES-samningum og þeim kostnaði sem af þeim gæti hlotist en önnur bein áhrif á ríkissjóð af samþykkt frumvarpsins eru talin óveruleg.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því að gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. apríl nk. en þann dag koma lög um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, til framkvæmda.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. hér í þinginu.