146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[15:35]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir ræðu sína. En áður en ég held áfram að ræða efni andsvarsins ætla ég að taka undir orð fyrrverandi hv. þingmanns Framsóknarflokksins, Frosta Sigurjónssonar, sem varar við samþykkt þessa frumvarps. Hann heldur því fram að verði frumvarpið að lögum verði þeir ríku ríkari þar sem frumvarpið feli í sér þann áskilnað að aðeins þeir neytendur geti tekið gengistryggð lán sem hafi nægar tekjur til að ráða við gengis- og vaxtabreytingar sem fylgt geta slíkum lánum. Þessi lán muni því aðeins standa efnafólki til boða. En nóg um það.

Enn þann dag í dag standa töluvert margir einstaklingar uppi með erlend lán, sams konar lán og voru dæmd ólögmæt eftir hrun, gengistryggð lán. Þeir eru enn í baráttu við fjármálastofnanir að leita réttar síns en lítið gengur. Þeir fá ekki úrlausn sinna mála. Mig langar því að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að þessir einstaklingar muni fá úrlausn sinna mála, fái farveg í kerfinu til að leita réttar síns. Það er mjög dýrt og erfitt að fara í mál gegn fjármálastofnunum og margir geta það hreinlega ekki.

Mun hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra beita sér fyrir því að þessir einstaklingar fái lausn sinna mála samhliða þeirri vinnslu sem þetta mál fær á hv. Alþingi, og ef það verður að lögum?