146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[15:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna.

Hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir vitnaði í Frosta Sigurjónsson í upphafi andsvars síns áðan. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki bara rétt hjá Frosta Sigurjónssyni að verði þetta frumvarp að lögum þá verði einmitt þeir ríku ríkari. Þar sem lánin munu aðeins standa efnafólki til boða þá munu þau hafa þau áhrif. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hvatinn til að taka gengistryggt lán og ávaxta í krónum sé ekki einmitt mikill og þar sé góð gróðavon vegna vaxtamunar. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að fara í fyrsta lagi yfir þetta með okkur. Svo í öðru lagi hvort rétt sé að verði frumvarpið að lögum munu þeir tekjuháu geta skotið sér undan stýrivaxtatækinu með því að taka gengistryggð lán á lægri vöxtum sem eiga ekkert skylt við stýrivexti Seðlabankans, og þeir séu þannig á allt öðrum kjörum en aðrir og geti bara haldið sinni þenslu óbreyttri, eins og Frosti Sigurjónsson bendir á í pistli sínum um þetta frumvarp.

Er það ekki bara einmitt rétt að verið er að ýta undir það að ríkir geti grætt meira á vaxtamun og að tapið verði okkar hinna, bæði í gegnum Seðlabankann hugsanlega og síðan í gegnum áhrif af þenslu?