146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[16:11]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það væri þá fróðlegt að heyra frá hv. þingmanni á hvaða lagagrundvelli Ísland ætlar að byggja sína vörn fyrir EFTA-dómstólnum. Er það einhver lagagrundvöllur sem Ísland telur sig geta byggt á? Hver er hann þá? Eða eru það bara af-því-bara-rök því hv. þingmaður er ósammála efni frumvarpsins?

Í öðru lagi: Hvar kemur það fram, m.a. í 8. gr. frumvarpsins, að verið sé eingöngu að vísa til þeirra sem hafa hærri tekjur? Það kemur fram í a-lið þeirrar greinar að um er að ræða það skilyrði að hafa tekjur í erlendri mynt. Gildir það þá eingöngu um hina efnuðu? Hvernig fær það þá staðist að þetta mál snúi sérstaklega að skilyrðum til lánveitinga til þeirra sem eru efnaðri frekar en sá lagarammi sem gildir að öllu öðru leyti um lán til almennings í landinu?