146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[16:12]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ábendingu líka en finnst eins og þetta sé eitthvað pínulítið viðkvæmt. Ég ætla að nefna hvað stendur hér í b-lið, vegna athugasemdar minnar um að það séu tekjuhærri einstaklingar sem hafi greiðari aðgang að þessum lánum. Þar segir:

„Lánveitandi skal aðeins veita lán tengd erlendum gjaldmiðlum til neytanda sem hefur staðist greiðslumat þar sem er gert ráð fyrir verulegum gengisbreytingum og verulegum hækkunum á vöxtum.“

Þeir sem geta staðist svona hafa auðvitað meiri tekjur en hinir. Þeir geta tekið á sig meiri sveiflur. Ég held að svona venjulegt heimilisbókhald geri það bara ekki. Þess vegna held ég að það sé mjög auðvelt að álykta út frá þessu að þetta sé aðeins í boði fyrir þá tekjumeiri. Ég bara trúi því ekki að hv. þingmaður sé ósammála því.