146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[16:15]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemd hans en verð að segja enn og aftur að ég held að við séum komin inn á ákveðinn viðkvæman punkt hjá ríkisstjórninni og stjórnarliðum.

Auðvitað erum við ekkert á móti því að hér eigi sér stað lánshæfismat. Þó það nú væri. En það sem er verið að benda á og er alveg hárrétt er að það eru efnameiri einstaklingar sem munu búa við önnur vaxtakjör ef við samþykkjum þetta frumvarp. Ég veit að það er svolítið erfitt að heyra þetta þegar maður er nýkominn á þing, að þetta sé staðan, en hún er bara svona. Og að reyna einhvern veginn að slá ryki í augu fólks varðandi þetta mál og segja að svona virki bara fjármálakerfið — við erum að veita nýtt aðgengi að nýjum lánamöguleikum sem munu mismuna.