146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[16:22]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki getur verið að hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason sé eitthvað viðkvæmur? Getur það verið? Mér heyrist það á öllu. Hér kemur hann upp í pontu með alls konar fullyrðingar sem sumar eru, vil ég bara leyfa mér að segja, alger vitleysa. Ég veit ekki hvað skal segja.

Jú, ég skal segja það: Það sem er hér í gangi er að við aukum áhættuna á því að ógna fjármálastöðugleika með þessu frumvarpi. Ég veit að það er erfitt fyrir þig að heyra vegna þess að þér er venjulegast frekar annt um það og annt um hagkerfið og hugsanlega jafnvel mótfallinn þessu, en vegna þess að þetta er stjórnarfrumvarp finnst þér kannski erfitt að heyra sumt af því sem undirrituð er að segja, sérstaklega er varðar mismunun gagnvart heimilunum í landinu.