146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[16:58]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú bara að ganga hreint til verks og segja með fyrstu spurninguna og vaxtamuninn og styrkingarfasa og kaup Seðlabankans og hvað ég álíti um styrkinguna: Kemur þessu máli ekkert við. Menn skulu fara að læra það hér á þingi að beina andsvörum að efni frumvarps en ekki einhverjum fílósófíum um atriði sem koma málinu ekkert við. Svona hugleiðingar hv. þingmanna í spurningum sem er beint til mín og varða ekki frumvarpið, ég hef reynt að leiða þær hjá mér og svara ekki slíkum spurningum.

Varðandi hitt atriðið: Ef ég má spyrja hv. þingmann úr sæti, var það varðandi b-lið 8. gr.? Þetta er alveg samsvarandi liður og samsvarandi ákvæði og eru í verðtryggðum lánum. Það kann að vera að þarna verði sjokk og hér varð til fyrir fjórum árum hugtakið neikvæður höfuðstóll. Neikvæður höfuðstóll skiptir bara nákvæmlega engu máli. Það sem skiptir máli er greiðslugeta. Það er væntanlega gert ráð fyrir því í öllum lánasamningum að það sé eitthvert svigrúm eða einhverjar eignir til að selja ef greiðslugeta viðkomandi fellur af einhverjum öðrum ástæðum þannig að ég skil þetta ósköp einfaldlega eins og ákvæði eru í almennum reglum um greiðslumat.

Þriðju spurninguna, ég hef ekki náð henni, ég hef dottið út, ég bara viðurkenni það. En það kemur kannski fram í næstu umferð.