146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[17:02]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég frábið mér hér brigslyrði hv. þingmanns öðru sinni. Ég tel enn og aftur að hugleiðingar um vaxtamun og hvað Seðlabankinn muni gera (Gripið fram í.) komi þessu máli ekkert við. Og ég frábið mér að það séu sjaldan svör frá mér og ég komi iðulega í pontu. Ég hef hrósað mér af því sjálfur að ég kem sem betur fer sjaldan í pontu og kem aðeins í pontu þegar ég hef eitthvað að segja, ekki til að keppa við einhverja aðila sem eru að reyna að komast á mælskuskrá.

Ég segi ósköp einfaldlega sem þolandi íslensks bankakerfis að ég hef undirgengist greiðslumat í íslenskum krónum þar sem er gert ráð fyrir verulegum breytingum á vöxtum, verulegum breytingum á vísitölu neysluverðs. Ég er ekki með lagasafnið við höndina en ég tel að þessar kröfur sem komu fram í greiðslumati sem ég hef undirgengst hafi verið byggðar á einhverjum lögum og ég tel ekki heldur að þær hafi verið neitt óskynsamlegar. Það er ósköp einfaldlega þannig í lífinu að þeir sem hafa borð fyrir báru njóta betri lánskjara, hvort heldur það eru ríki, fyrirtæki eða einstaklingar. Það er bara hlutur sem skoðanir mínar breyta engu um. Ég tel að þessi rammi sem hér er verið að setja — í rauninni kann einhver að segja að hann sé algerlega óþarfur vegna þess að það er hægt að taka erlend lán sem eru með uppgjöri í annarri röð breytistærða. (Forseti hringir.) Þannig að ég fæ ekki séð að þessi andsvör hv. þingmanns hafi bætt nokkru við vísdóm.