146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[17:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni um þetta mál í dag. Þeir sem styðja málið, fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna, hafa keppst við að koma hér upp og gera lítið úr því, þetta sé nú ekkert stórmál og skipti nú ekki öllu máli, það sé jú mismunun í lífinu í hinum kapítalíska heimi. Það er rétt hjá þeim. Þannig er nú lífið. Það er líka rétt að þetta mál er, eins og við segjum stundum í þinginu, þess eðlis að það hafa ekkert sérstaklega margir áhuga á að sitja í þingsal og hlusta eða taka þátt í umræðu um slíkt mál, ég tala nú ekki um þegar líður á seinni part fimmtudags. En hér er engu að síður um nokkurt grundvallarmál að ræða. Hér er verið að leggja fram mál vegna EES-réttar. Það skiptir máli hvernig sú tilhögun er gerð á Íslandi, í landi með 332 þúsund neytendur, íbúa sem eru með sína eigin mynt.

Hér er sem sagt verið að opna á tæki til þess að hægt sé að taka hér gengistryggð lán að nýju, ekki mörgum árum eftir að við þurftum að súpa seyðið af því að hér var tekinn umtalsverður skafl af gengistryggðum lánum með tilheyrandi afleiðingum fyrir bæði íslenskt efnahagslíf og marga einstaklinga sem tóku slík lán.

Ég nefndi það áðan að þetta væri í þriðja sinn sem málið væri lagt fram. Það hefur verið lagt fram tvisvar fram áður, á 144. og 145. löggjafarþingi, og er lagt fram að nýju með nokkrum breytingum. Hv. þm. Lilja Alfreðsdóttir las hér upp úr greinargerðinni, á bls. 5, kafla 2.2, Reynslan af fjármálaáfallinu árið 2008. Ég hvet áhugasama til að lesa það og velta því síðan fyrir sér til hvers sé verið að leggja fram þessa leið í frumvarpinu þegar menn hafa kynnt sér þann kafla. Ég ætla að sleppa við að fá leyfi forseta til að lesa hann upp.

Ástæðan fyrir því að frumvarpið er lagt hér fram í þriðja sinn er að á síðasta kjörtímabili í ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins stóðum við Framsóknarmenn í vegi fyrir því að málið yrði afgreitt með þessum hætti. Það var stór hluti þingheims sem hafði sömu áhyggjur og við. Það reyndi hins vegar aldrei á það hvort meiri hluti væri því, því að það kom ekki til atkvæðagreiðslu undir lok kjörtímabilsins. Við Framsóknarmenn erum nefnilega þeirrar skoðunar að það eigi að búa ein þjóð í þessu landi og að hún eigi að sitja við sama borð. Sama hversu mönnum þykir sárt að heyra það sem eru stuðningsmenn þessarar leiðar, þegar kemur að þessu máli er verið að opna möguleika og verið að gefa þeim efnameiri færi á að taka lán með allt öðru vaxtastigi en þau lán sem bjóðast öðrum. Þess vegna erum við á móti þessari leið. Aukinheldur er verið að opna glugga á efnahagslegan óstöðugleika. Hér er sagt að fjármálastöðugleikaráð og Seðlabankinn hafi heimildir til að grípa inn í. Hvenær verður gripið inn í? Hver er þröskuldurinn? Hvenær segja menn að nóg sé nóg og að nú sé komin áhætta og það þurfi að grípa inn í? Hverjir hafa þá haft tækifæri til að taka lán á allt öðrum kjörum en allur þorri landsmanna?

Spurningin er kannski þessi: Af hverju er verið að þessu? Ég ætla að sleppa því að svara því. Ég mundi miklu frekar vilja sjá að ríkisstjórnin horfði nú jákvæðum augum á þingsályktunartillöguna sem við Framsóknarmenn lögðum fram á þinginu í dag um að fara í greinargóða, ítarlega, nákvæma skoðun á því af hverju vaxtastigið á Íslandi er svona hátt og hvort við getum ekki stefnt að því að hér séu vextir lægri til langtíma en þeir hafa verið hér um langt skeið, þar sem allir Íslendingar sætu við það sama borð ef það væri mögulegt að lækka vexti, þar á meðal á íbúðalánum til allra. Þingsályktunartillaga í sex liðum.

En sú leið sem hér er farin er sem sagt þannig að þeir neytendur sem standast ákvæðið í b-lið 8. gr., standist bæði greiðslumat og geti gert ráð fyrir verulegum gengisbreytingum og verulegum hækkunum á vöxtum og hafi nægilegar tekjur í gjaldmiðli, eigi að geta tekið slík lán, aðrir ekki.

Á síðasta kjörtímabili var lögð fram breytingartillaga við b-lið 8. gr., þar sem bætt var við annars vegar um greiðslumatið og að menn gætu þolað verulegar gengisbreytingar og verulegar hækkanir á vöxtum. Jafnframt var bætt við: Og leggi fram erlendar eignir í þeim gjaldmiðli sem tengist láninu til tryggingar, og síðan: Eða c. Sjálfstæðismenn töldu þetta vera mikla forsjárhyggju á síðasta kjörtímabili og óþarft að ganga svona langt til að tryggja að þessir einstaklingar tækju slík lán, þeir yrðu bara að taka þessa áhættu sjálfir. Við Framsóknarmenn töldum hins vegar að þetta væri fyrirhyggja og réttlæti vegna þess að taki stór hópur manna slík lán og þau verða ekki stöðvuð fyrr en á efstu stundu er komin áhætta fyrir efnahagslegan stöðugleika. Og hvar lendir hann? Hann lendir á öllum hinum sem ekki höfðu tækifæri til að taka gengistryggð lán á lægri vöxtum heldur þurfa að sitja í þeirri súpu að vera með verðtryggð lán sem munu hækka við slíkan óstöðugleika.

Það má líka velta því fyrir sér hvort Seðlabankinn tapi á því að umtalsverður hópur manna taki peningana sína og breyti þeim í erlend gengistryggð lán. Óvarðir lántakendur ógna sannarlega stöðugleika gjaldmiðilsins. Það geta magnast upp sveiflur á gengi krónunnar því að menn munu auðvitað reyna að verja sig, stefni í mikla veikingu á krónunni. Það er spurning af hverju ríkisstjórnin vill bjóða þeirri hættu heim.

Síðan þekkjum við sem hér búum tæki Seðlabankans sem heitir stýrivextir. Það var alkunna þegar mjög stór hópur manna á Íslandi var kominn með erlend gengistryggð lán að stýrivaxtatækið virkaði ekki. Með öðrum orðum: Það eru einhverjir sem eiga að sleppa við stýrivaxtatækið, aðrir eiga að búa við það tæki og það vaxtaokur sem því fylgir.

Eins og ég nefndi áðan er spurningin hvort byrgja eigi brunninn eftir á þegar tjónið er orðið.

Hv. þm. Lilja Alfreðsdóttir minntist hér á að það eru ekki bara litlar þjóðir eins og á Íslandi með fáa íbúa og sérstaka mynt sem horfa til þess vanda sem gengistryggð lán eru. Hér hefur Austurríki verið nefnt. Í mörgum löndum sem jafnvel hafa evru og eru innan Evrópusambandsins hafa menn gripið til alls kyns tækja, eins konar hafta, til þess að tryggja að það sé meiri stöðugleiki í þeirra efnahagsmálum. Það var sterk andstaða við málið á síðasta kjörtímabili undir forystu okkar Framsóknarmanna. Það er ástæðan fyrir því að þetta mál er ekki búið. Það er erfitt að skilja af hverju nýr hæstv. fjármálaráðherra sækir svo stíft að opna fyrir lánategund sem Seðlabankinn, vel að merkja, varaði við frá upphafi. Í bæði hin skiptin á síðasta kjörtímabili varaði Seðlabankinn eindregið við að opnað yrði á þessa leið vegna þess að hún hefur valdið tjóni á Íslandi áður og reyndar í fjölmörgum öðrum ríkjum líka.

Á síðasta kjörtímabili náðist hins vegar að klára nýsamþykkt heildarlög um fasteignalán. Ætlun þáverandi fjármálaráðherra var líkt og hjá núverandi ráðherra, að heimila gengistryggð íbúðalán til óvarinna lántaka. Þá tókst með mikilli baráttu og samstöðu þingmanna að koma inn breytingu til að koma í veg fyrir að slík lán yrðu veitt óvörðum lántökum. Verði þetta nýja frumvarp að lögum er sú breyting afturkölluð þannig að efnafólkið getur tekið slík lán. Það væri sannarlega mikli afturför. Með öðrum orðum; núverandi fjármálaráðherra og núverandi ríkisstjórn ætla að ganga lengra, en um núverandi lög sem samþykkt voru á síðasta kjörtímabili náðist þó samstaða í þinginu.

Að lokum þetta, herra forseti: Það er ljóst að við þurfum að bregðast við áliti EES. Það er líka ljóst að við, íslenska þjóðin, höfum allra þjóða best lært af því hversu varhugavert það er að ganga óvarlega um gleðinnar dyr þar sem við erum að opna nýjar lánalínur, nýja tegund lána, í gengistryggðum lánum.

Ég vil hvetja þingheim, og treysti því að það verði gert í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, að fara vel yfir þetta mál, og kynna sér þær umsagnir, ekki síst Seðlabankans, frá síðasta kjörtímabili áður en menn fara lengra með málið.

Ég vil ljúka þessu máli mínu á að ítreka spurningu mína til hæstv. fjármálaráðherra: Hver er þröskuldurinn að hans mati? Hvenær á fjármálastöðugleikaráð að grípa inn í? Hvað er upphæðin há sem má vera farin út í þessum lánaflokki áður en menn telja nauðsynlegt að grípa í taumana?