146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[17:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmönnum fyrir þessa umræðu sem hefur verið hér í dag. Ég ítreka að ég skil vel áhyggjur þeirra af áhættu sem í slíkum lánum getur falist. Ég endurtek það sem ég sagði í svari við andsvari áður að það er engin ástæða til að hvetja almenning til að taka áhættu af slíkum lánum.

Ég vil jafnframt segja við hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson að ég hef svo sem ekki tölu um það hvenær eigi að grípa inn í það ef það væri komin mikil hætta af slíkum lánum, en ég vek þó athygli á því og ítreka það sem ég hef áður sagt að hér erum við að tala um að leyfa með örlítið öðrum hætti lán sem eru nú þegar leyfð, þ.e. það er leyft að almenningur taki lán í gjaldeyri. Því fylgja að sjálfsögðu allar þær hinar sömu hættur og það er notað sama greiðslumat og meiningin er að notuð yrðu fyrir lán af þessu tagi. Hér er því ekki verið að opna á eitthvert algerlega breytt form frá því sem áður var heldur er verið að opna á mjög svipað form og nú þegar er leyft og var t.d. leyft í þeirri ríkisstjórn sem hv. þingmaður sat í á síðasta kjörtímabili.

Hér held ég að við vitum öll að kjarni málsins er sá að við höfum fengið þessi eindregnu tilmæli um að samþykkja þetta, setja ákvæði af þessu tagi í íslensk lög. Það er búið að gefa okkur síðustu viðvörun í því. Ég tel að það sé útgjaldalaust af okkar hálfu að samþykkja þessa breytingu því hér erum við ekki að tala um stóra eðlisbreytingu heldur meira formbreytingu á ákveðnum lánum.

Ég vil hins vegar að lokum segja það að ég vil taka undir orð hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar og vona að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fari vel yfir málið, fái umsagnir um það frá aðilum og kynni sér vel hvað í þessu geti falist því að þá er ég sannfærður um að hún muni komast að þeirri niðurstöðu að þarna er um minni háttar formbreytingu er að ræða sem heppilegt er fyrir Íslendinga að taka í sín lög.