146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[17:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði. Þessu eftirlitskerfi er ætlað að vernda hagsmuni almennings og fjármálamarkaðarins með því að stuðla að stöðugleika og heilbrigði fjármálakerfisins á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Ísland varð aðili að hinu samevrópska eftirlitskerfi á fjármálamarkaði í september á síðasta ári, eftir að þingsályktun þess efnis hafði verið samþykkt af Alþingi.

Hinar þrjár evrópsku eftirlitsstofnanir eru Evrópska bankaeftirlitsstofnunin, sem kölluð er EBA, Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin, sem kölluð er EIOPA, og Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin, sem kölluð er ESMA. Allar eru þær sjálfstæðar með eigin fjárhag. Helsta hlutverk þeirra er að vernda almannahagsmuni og stuðla að stöðugleika og skilvirkni í fjármálakerfinu á þeim hluta fjármálamarkaðar sem viðkomandi stofnun starfar. Evrópska kerfisáhætturáðið, ESRB, er einnig hluti kerfisins en það fer ekki með bindandi valdheimildir heldur er því ætlað að meta og vakta kerfisáhættu og greina ógnir sem kunna að steðja að fjármálastöðugleika innan Evrópusambandsins.

Stofnanirnar þrjár sem um ræðir tóku til starfa árið 2011 innan Evrópusambandsins en eftir að reglugerðirnar voru teknar upp í EES-samninginn nær kerfið einnig til EES-ríkjanna.

Reglugerðirnar eru innleiddar eins og þær hafa verið aðlagaðar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Eftirlitsstofnun EFTA verður eftirlitsaðili á því er varðar EFTA-ríkin innan EES og mun fara með bindandi valdheimildir hinna evrópsku eftirlitsstofnana á íslensku yfirráðasvæði gagnvart stjórnvöldum og í undantekningartilvikum gagnvart einstaklingum og lögaðilum.

Ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA verður hægt að skjóta til EFTA-dómstólsins. Eftirlitsstofnun EFTA verður því eftirlitsaðili á sviði fjármálamarkaða innan EES-ríkjanna á sama hátt og hinar evrópsku eftirlitsstofnanir eru gagnvart ríkjum Evrópusambandsins. Um hlutverk ESA, sem er Eftirlitsstofnun EFTA, er fjallað í aðlögunartexta við gerðirnar í ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Mikilvægt er að árétta að valdheimildir þær sem gert er ráð fyrir að ESA fari með eru fyrst og fremst ætlaðar til þrautavara og meginreglan verður áfram fjármálaeftirlit á landsréttargrunni, hér á landi hjá Fjármálaeftirlitinu.

Um hlutverk og valdheimildir er fjallað í reglugerðunum sjálfum sem lagt er til að fái lagagildi. Talsverð umfjöllun var um stofnanirnar, valdheimildir þeirra og aðlögun við upptöku gerðanna í EES-samninginn á síðasta löggjafarþingi. Ítarlega umfjöllun um forsögu þessa máls má finna í tillögu til þingsályktunar sem lögð var fyrir Alþingi og samþykkt í september sl. Þingsályktunartillögunni fylgdi álitsgerð um stjórnskipulegar heimildir til innleiðingar gerðanna.

Lagt er til að fjórum megingerðum um hinar evrópsku eftirlitsstofnanir, þ.e. EBA, EIOPA og ESMA, verði veitt lagagildi ásamt gerðum um Evrópska kerfisáhætturáðið. Reglur um framkvæmd eftirlits eru tíundaðar í athugasemdum við frumvarpið og verður eftirlitið að meginstefnu á hendi Fjármálaeftirlitsins í samvinnu við Eftirlitsstofnun EFTA. Upplýsingagjöf frá FME til evrópskra eftirlitsstofnana er heimiluð með frumvarpinu.

Í frumvarpinu er kveðið á um upplýsingagjöf frá FME, þ.e. íslenska Fjármálaeftirlitinu, til ESA og annarra EES-stofnana. Kveðið er á um aðfararhæfi ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA á þessu sviði. Þá er lögð til breyting á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi sem varðar upplýsingagjöf Fjármálaeftirlitsins og leiðir af efni frumvarpsins að öðru leyti.

Með frumvarpinu fylgir rafrænt fylgiskjal sem hefur að geyma reglugerðirnar eins og þær hafa verið aðlagaðar að EES-samningnum. Skjalið er ætlað til upplýsinga.

Virðulegi forseti. Með lögfestingu þessa frumvarps fær Ísland aðgengi að hinu evrópska eftirlitskerfi á fjármálamarkaði. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að innleiðing ákvæða um þetta eftirlitskerfi í íslensk lög er forsenda fyrir áframhaldandi þátttöku Íslands í IX. viðauka EES-samningsins sem varðar fjármálaþjónustu. Aðild Íslands að kerfinu er nauðsynleg eigi íslensk fjármálafyrirtæki að geta starfað á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins, fyrir fjármálaþjónustu og til að stunda greið viðskipti yfir landamæri. Að endingu ber að árétta að sú lausn sem fékkst við upptöku gerðanna í EES-samninginn, á grundvelli tveggja stoða kerfisins, var sigur fyrir Ísland og EES-ríkin.

Samþykkt þessa frumvarps er einnig forsenda þess að hægt verði að lögfesta ýmsar umbætur í löggjöf á fjármálamarkaði, þ.e. umbætur sem Ísland hefur skuldbundið sig til að innleiða í íslensk lög á grundvelli EES-samningsins og hafa bein tengsl við valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA og evrópsku eftirlitsstofnananna. Lögfesting þeirra umbóta er mikilvæg til að tryggja samkeppnisstöðu aðila á innlendum fjármálamarkaði og stuðla að skýrara lagaumhverfi sem er í samræmi við það sem gildir í nágrannalöndunum.

Ég vil að lokum árétta að ég tel mjög mikilvægt að frumvarp þetta nái fram að ganga til að styrkja eftirlit á fjármálamarkaði hér á landi og til að tryggja áfram farsæla aðild Íslands að EES-samningnum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.