146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[17:34]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Virðulegi forseti. Hér er stórt mál á ferðinni sem felur í sér nánara samstarf Evrópuríkja til að hafa eftirlit með fjármálamörkuðum á EES-svæðinu öllu. Frumvarpið felur í sér að aðild Íslands að evrópsku eftirlitskerfi á fjármálamarkaði verður lögfest. Kerfinu er ætlað að vernda hagsmuni almennings og fjármálamarkaðarins með því að stuðla að stöðugleika og heilbrigði fjármálakerfisins. Með svokallaðri tveggja stoða lausn verður Ísland hluti af kerfi þar sem fjórar eftirlitsstofnanir koma við sögu. Það eru Evrópska bankaeftirlitsstofnunin, Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin, Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin og Evrópska kerfisáhætturáðið.

Tilgangur þessara fjögurra stofnana er að tryggja þéttara samstarf fjármálaeftirlita aðildarríkjanna, auðvelda beitingu evrópskra lausna vegna vandamála sem varða mörg ríki og styðja við einsleita beitingu og túlkun reglna. Með þessu má segja að kerfisumgjörð fyrir fjármálamarkað innan Evrópska efnahagssvæðisins verði í höndum evrópskra stofnana en daglegt eftirlit með fjármálafyrirtækjum og mörkuðum verði eftir sem áður í höndum einstakra ríkja, að undanskildu eftirliti með lánshæfismatsfyrirtækjum og afleiðuviðskiptaskrám.

Aðkoma Íslands, Noregs og Liechtensteins hefur verið löguð að EES-samningnum á grundvelli tveggja stoða kerfisins. Það var krafa Íslands að svo yrði, m.a. til þess að aðild Íslands uppfyllti stjórnskipunarleg skilyrði og skorður sem Íslandi væru settar við framsal valds til erlendra eftirlitsstofnana.

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, verður eftirlitsaðili með fjármálastarfsemi hvað varðar EFTA-ríkin innan EES. Það þýðir að vald til að taka bindandi ákvarðanir, sem liggur hjá evrópsku eftirlitsstofnununum innan ESB, færist til Eftirlitsstofnunar EFTA innan EFTA-stoðarinnar. Allar bindandi ákvarðanir gagnvart stjórnvöldum, og til þrautavara aðilum á fjármálamarkaði, í EFTA-ríkjunum innan EES, verða teknar af Eftirlitsstofnun EFTA, ESA. Ákvörðunum þeirrar stofnunar verður hægt að skjóta til EFTA-dómstólsins á sambærilegan hátt og ákvörðunum eftirlitsstofnana innan ESB er unnt að skjóta til dómstóls Evrópusambandsins. Þessi lausn er meðal annars grundvölluð á ítarlegum álitsgerðum lögfræðinganna Bjargar Thorarensen, Stefáns Más Stefánssonar og Skúla Magnússonar. Á fundi fjármála- og efnahagsráðherra ríkja Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna innan EES árið 2014 náðist samkomulag um meginatriði í aðlögun umræddra reglugerða að EES-samningnum. Með samkomulaginu viðurkenndu aðilar mikilvægi hinna nýju eftirlitsstofnana ESB fyrir viðhald og þróun eins samræmds markaðar fyrir fjármálaþjónustu og þar með að umræddar reglugerðir þyrfti að taka upp í EES-samninginn. Lausn var fundin sem tæki tillit til hagsmuna beggja aðila, uppbyggingar og markmiða bæði umræddra ESB-gerða og EES-samningsins, svo og lagalegra og stjórnmálalegra takmarkana Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna innan EES.

Í hnotskurn má segja að með þessu hafi EFTA-ríkin innan EES fyrir sitt leyti viðurkennt mikilvægi hins nýja eftirlitskerfis ESB fyrir innri markaðinn og þar með markmið um einsleitni EES-samningsins. Á móti hafi Evrópusambandið viðurkennt að við aðlögun þessa kerfis að EES-samningnum yrði að taka tillit til grunnreglna samningsins. Þetta tókst, ekki síst fyrir tilstuðlan og viðurkenningu á sjónarmiðum Íslands.

Virðulegi forseti. Það hefur tekist að finna farsæla lausn til að Ísland geti orðið hluti af þessu mikilvæga eftirlitskerfi án þess að ganga fram hjá þeim skorðum sem stjórnskipun okkar setur. Engu að síður er ávallt full ástæða til að vera á varðbergi og minna okkur á nauðsyn þess að takast á við það brýna verkefni að endurskoða stjórnarskrá okkar til að skýra betur þær heimildir sem við höfum til þátttöku í alþjóðlegu samstarfi, þar með talið alþjóðlegra stofnana sem gegna mikilvægu hlutverki í samstarfi á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi.