146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

um fundarstjórn.

[15:04]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil vekja athygli á undarlegri leikfléttu samgönguráðherra sem kvisaðist út meðal landsmanna um síðustu helgi þar sem hann kynnti aðgerðir í samgöngumálum. Það vekur furðu margra þingmanna og hefur hreinlega þyrmt yfir íbúa landsbyggðar, hvort sem það er fyrir austan eða vestan. Á Vestfjörðum erum við fremur að tala um vegleysur en vegi sem eru illfærar stóran hluta ársins. Ef það er ekki snjór þá er það for. Við erum ekki að tala um að endurnýja slitlag á vegum. Við erum ekki að tala um að skipta eigi út einbreiðum brúm, því að vegir í tugakílómetravís eru einbreiðir og malarvegir.

Frú forseti. Það er alvarlegt ef þingið fær ekki að koma að breytingum á samgönguáætlun sem það hefur sjálft samþykkt. Ráðherra hefur farið óvarlega með vald sitt sem honum hefur nýlega verið gefið. Vinnubrögð sem þessi munu ekki (Forseti hringir.) lúta neinum friði. Það er mál að þingið láti til sín taka. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)