146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:06]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég má til með að taka undir með tveimur hv. þingmönnum sem hafa komið hér á undan mér. Það sem við erum að sjá hérna snýst ekki einungis um þá þingsályktunartillögu sem samgönguáætlun er og var samþykkt naumlega eftir mjög langa bið, heldur einnig um fjárlög og um það hver hafi eiginlega fjárveitingavaldið. Er það Alþingi eða ríkisstjórnin? Við erum að horfa upp á alveg fordæmalausa aðgerð frá hæstv. ráðherra sem snýr í raun að því að virða að vettugi þær ályktanir sem koma frá Alþingi, þau lög sem koma frá Alþingi, þau fyrirmæli sem koma frá Alþingi. Þá verður maður spyrja: Er þingræði hér á landi eða erum við að sjá enn einu sinni merki þess að hér sé í raun bara framkvæmdarvaldsræði, ráðherraræði. Er það eitthvað sem við sættum okkur við? Mér finnst þetta alveg einstaklega alvarlegt, sér í lagi í ljósi þeirrar miklu og víðtæku sáttar (Forseti hringir.) sem varð hér fyrir jól varðandi fjárlögin. Þetta brýtur algjörlega það trúnaðartraust sem skapaðist hér.