146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er þannig bæði í lögum um samgönguáætlun og í vegáætlun og algjörlega skýrt að það skal unnið samkvæmt áætlunum sem Alþingi hefur samþykkt og eru „sundurliðaðar eftir einstökum framkvæmdum“ samanber 4. mgr. 3. gr. laga um samgönguáætlun og 2. mgr. 16. gr. vegalaga. Þetta getur ekki skýrara verið. Það skal unnið samkvæmt áætlunum sem eru sundurliðaðar eftir einstökum framkvæmdum og Alþingi hefur samþykkt. Þar af leiðandi getur samgönguráðherra ekki borið við misræmi milli vegáætlunar og fjárlaga til að taka sér geðþóttavald um að kollvarpa þeirri framkvæmdaröð sem Alþingi hefur ákveðið. Það stenst ekki stjórnskipulega. Það stenst ekki lög. Ráðherrann gæti í nauðvörn sinni fært allar fjárhæðir niður hlutfallslega jafnt og sagt að hann væri hlutlaus gagnvart röðun Alþingis, en hann getur ekki tekið einstaka framkvæmdir og hent þeim algjörlega út á meðan aðrar fá fullan framgang. Það gengur ekki upp. Þá (Forseti hringir.) verður hann að leggja nýja tillögu, nýja forgangsröðun, fyrir Alþingi og auðvitað þarf (Forseti hringir.) meiri peninga. Öðruvísi verður þetta ekki leyst. Skilaboðin frá þjóðfélaginu núna eru auðvitað (Forseti hringir.) einföld: Þetta ófremdarástand getur ekki varað lengur.