146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég var nefndarmaður í fjárlaganefnd í desember sl. þegar fjallað var um þá forgangsröðun sem hér um ræðir. Þá komu Vegagerðin og ráðuneyti og kynntu verkefnastöðuna fyrir fjárlaganefnd. Í fjárlaganefnd voru tveir núverandi ráðherrar og forseti Alþingis. Þau vita alveg um hvað málið snýst og um hvað var náð samkomulagi. Þær fréttir sem berast okkur núna eru ekki í samræmi við það samkomulag sem þessir ráðherrar og forseti Alþingis vita um. Það er ekki í samræmi við það sem Vegagerðin og ráðuneytið sögðu okkur um stöðuna sem verkefnaáætlunin var í og við samþykktum.

Þetta er dálítið snúið mál og sérstaklega varhugavert núna þegar komin eru ný lög um opinber fjármál sem ýja að því að ráðherra geti umturnað innan síns málaflokks (Forseti hringir.) þeim verkefnum og framkvæmdum sem eru í gangi og að Alþingi geti ekki gert neitt við því. Við þurfum að bregðast við þessu.