146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:20]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tel einsýnt að hæstv. ráðherra hafi í raun og veru ekki heimild samkvæmt gildandi lögum til að fara gegn ákvörðunum Alþingis. Ég bið um fulltingi forseta í því að reka hann til baka með þetta. Þarna er hæstv. ráðherra Jón Gunnarsson að beita geðþóttavaldi. Það höfum við séð áður í hans embættisfærslum. Við sáum það áður að hann var rekinn til baka með breytingar á rammaáætlun. Núna þarf að reka hæstv. ráðherra Jón Gunnarsson til baka með forgangsröðun vegna framkvæmda samgönguáætlunar. Ég trúi því ekki, virðulegur forseti, að meiri hluti Alþingis styðji vinnubrögð hæstv. ráðherra Jóns Gunnarssonar. Ég vil minna á, af því það hefur verið nefnt, að fyrir liggur beiðni um sérstaka umræðu um framkvæmd samgönguáætlunar að beiðni hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés til Jóns Gunnarssonar. Ég óska eftir því við virðulegan forseta að þessi umræða verði strax á allra (Forseti hringir.) næstu dögum vegna þess að málið þolir enga bið. Virðing Alþingis er í húfi.