146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í málum af þessu tagi er eðlilegt að þingmenn hafi sterkar meiningar og miklar skoðanir. Ég bið menn samt að velta fyrir sér með hvaða hætti er hægt að beina þessum umræðum í skipulagðan og uppbyggilegan farveg hér í þinginu frekar en að vera í fundarstjórn forseta með æsing og upphrópanir. Hér hefur verið töluverður æsingur og miklar upphrópanir í þessari umræðu. Við höfum fengið þær upplýsingar frá formanni umhverfis- og samgöngunefndar að ráðherra muni koma fyrir þá nefnd hinn daginn til þess að ræða þessi sjónarmið. Ég tel að það sé eðlilegt að sú umræða hefjist á þeim vettvangi þó að henni ljúki kannski ekki þar. Með sama hætti er eðlilegt að fjárlaganefnd skoði þá þætti sem að henni snúa. En fyrst og fremst held ég að það sé mikilvægt fyrir okkur að við ræðum þessi mál yfirvegað og í einhverjum skipulegum farvegi frekar en að 20 manns komi (Forseti hringir.) upp í fundarstjórn forseta til þess að æsa sig þegar möguleikar eru (Gripið fram í.) á að koma þessum málum í (Forseti hringir.) skipulagðari (Gripið fram í.) farveg.