146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:23]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér ætla ég að mæla af yfirvegun og ró. Hef reynt að temja mér það og hyggst halda því áfram. Ég vil líka hugsa í lausnum og leggja til hvernig við getum leyst þetta mál. Ég fagna því sem hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir tilkynnir okkur, að hæstv. ráðherra muni koma fyrir samgöngunefnd. Einnig veit ég að það er inni beiðni um að hæstv. ráðherra komi fyrir fjárlaganefnd. Það tel ég gott og legg til að forseti hvetji hæstv. ráðherra til þess. Þá vil ég líka taka undir þær hugmyndir að það væri gríðarlega gott og gagnlegt, gott fyrir okkur hér, að koma saman og ræða við hæstv. ráðherra um hvaða leið við erum að fara.

Erum við hér bara í einhverri hringekju, hoppandi þingmenn á einhverjum brettum? Þá getum við alveg eins verið hérna niðri í æfingaherberginu og ráðherrarnir séð um þetta. Þannig á það ekki að ganga. En tölum saman. Og verum róleg, það erum við öll.