146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:26]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Ég hef mikla ánægju af að lesa upp úr skárri köflum samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Unnið verður að því að byggja upp traust á grunnstoðum samfélagsins, meðal annars Alþingi …“

Hvernig byggjum við upp traust með því að samþykkja samgönguáætlun fyrir kosningar, tala í kosningabaráttu um nauðsyn þess að fjármagna þá uppbyggingu, og svo bara strax eftir kosningar gleymist það? Hvernig byggjum við síðan upp traust hér innan þings, ekki bara gagnvart kjósendum heldur þeim 63 sem sitja hér á þingi? Hvernig byggjum við það traust upp þegar við samþykkjum samkomulag við afgreiðslu fjárlaga sem ráðherra telur sig ekkert vera bundinn af? Anda þess samkomulags er bara fleygt út um gluggann ef ráðherra sýnist svo.

Þetta snýst um traust sem við þurfum að byggja upp, bæði gagnvart þjóðinni og hvert öðru. Í því skyni þarf einmitt að taka hæstv. ráðherra Jón Gunnarsson á einhvers konar samskiptanámskeið því að hann er þessu hlutverki ekki vaxinn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)