146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég tek undir þær lausnir sem hér hafa komið fram. Við erum öll róleg nema kannski hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem talaði hér um æsing.

En mér finnst ótrúlegt að sjá hvernig hæstv. ráðherra hagar sér hér ítrekað en ekki síður gagnvart þeim sem þetta mál mun hafa mikil áhrif á. Með leyfi forseta sagði Jón Gunnarsson samgönguráðherra að mótmæli heimamanna breyttu engu, það væri búið að taka ákvörðun um forgangsröðun í vegaframkvæmdum en hann vonaðist til að fá meira fjármagn til umræðu á næsta ári svo hægt væri að klára veginn.

Frú forseti. Það var búið að forgangsraða. Það var búið að greiða atkvæði hér í þinginu um hvernig sú forgangsröðun ætti að vera. Hæstv. ráðherra virðist ekki ætla að hlusta á mótmæli heimamanna eða þingmanna eða sína eigin ákvörðun. (Forseti hringir.) Mér finnst það með ólíkindum. Ég skora á forseta að hlutast til um að hér fari þessi umræða með ráðherranum fram í þingsal, í björtu.